Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ræðan sem ýtti af stað annarri #metoo-bylgju

22.09.2020 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Skjákskot
Önnur #metoo-bylgja ríður nú yfir Danmörku. Á annað þúsund konur í fjölmiðlum þar í landi lýsa yfir stuningi við nýlega frásögn Sofie Linde af áreitni og misrétti í starfi sínu. Allir virðast sammála um að kynbundið misrétti og áreitni eigi ekki að viðgangast í Danmörku en það virðist hægara sagt en gert að uppræta það.

Ég er ótrúlega glöð að fá að vera hér. Ég er virkilega stolt af því að vera gestgjafi hér í kvöld, ég er önnur konan í fjórtán ár sem hef fengið að gegna því hlutverki. 

Á þessum orðum hófst opnunarræða Sofie Linde á hinni árlegu hátíð Zulu Comedy Gala í byrjun september. 

Zulu sjónvarpsstöðin í Danmörku heldur þetta skemmtikvöld árlega, útsendingin er eins konar uppskeruhátíð danskra uppistandara og grínista. Þar eru þeim veitt verðlaun sem þykja skara fram úr í faginu og þeim sem þykja vonarstjörnur í dönsku gríni. 

En öllu gríni fylgir einhver alvara, og þannig var það svo sannarlega í ár. Um fátt hefur verið annað talað í dönsku samfélagi og fjölmiðlum en ræðu kynnis hátíðarinnar, Sofie Linde. 

Hún sagði nefnilega ekki bara frá því hvað hún væri upp með sér að fá að taka að sér hlutverk gestgjafans. Að hún hefði rakað sig undir höndunum, klætt sig í nýjan kjól og farið í háhælaða skó. Linde sagði líka frá því, og sýndi, að hún væri ófrísk. Það væri ánægjulegt og gleðilegt en líka erfitt. Ekki bara vegna morgunógleði og þreytu heldur líka vegna þess að óléttar konur drægjust ósjálfrátt aftur úr, væru dæmdar úr leik. En því hafi hún reyndar verið viðbúin í mörg ár. 

„Fyrir mörgum árum síðan fór ég í launaviðtal og bað um að fá jafn mikið greitt og samstarfsmaður minn,“ sagði Linde. „Mér finnst ég eiga það skilið. Það var hins vegar ekki auðfengið.“ 

Linde lýsir því að yfirmaður hennar hafi gert henni ljóst að það gæti ekki gengið. Það væri erfiðara að treysta á hana sem starfsmann, hún gæti jú orðið ólétt, ólíkt manninum sem hún vann með. Linde segist hafa tekið yfirmanninn trúanlegan, og keypt þessar útskýringar á því að hún fengi minna greitt fyrir sömu vinnu og karlkyns samstarfsmaður hennar. Því að hún gæti, einhvern tímann, orðið ólétt.  

Og allar götur síðan, segir Linde, hef ég verið með lægri laun en strákarnir sem ég vinn með. Jafnvel enn þann dag í dag. 
 

Eins og að vera hæsti dvergurinn, þú drukknar samt

Sofie Linde er fædd 1989. Hún hefur leikið í kvikmyndum og starfað í fjölmiðlum í áraraðir. Hún hefur verið aðalkynnirinn í raunveruleikaþættinum X-Factor í Danmörku í nokkur ár. 

Hæfileikakeppnin X-Factor er eitt af hugarfóstrum Simons Cowell, Bretans sem hefur ýmist hrósað eða, sem er reyndar mun algengara, gagnrýnt harðlega vongott hæfileikafólk sem þykist kunna sitthvað fyrir sér á ýmsum sviðum í sjónvarpi. Eftir sigurför Idol hæfileikakeppninnar hleypti Cowell X Factor af stokkunum. 

Þar þarf ekki bara að syngja, í raun mega þátttakendur gera hvað sem þeir vilja, syngja, hjóla, dansa, herma eftir, galdra eða bara hvað sem er. Hátt í 200 þátttakendur hafa staðið uppi sem sigurvegarar í þættinum sem settur hefur verið upp um allan heim, í öllum heimsálfum, ja nema reyndar á Suðurskautslandinu. 

X-Factor hefur gengið í Danmörku árum saman, þátturinn var fyrst sýndur á DR en er nú á dagskrá TV2. 

Og Sofie Linde segist nýlega hafa farið í launaviðtal þar líka. Svona eins og þarna í gamla daga. Yfirmenn hennar hafi tekið launakröfum hennar með nokkurri undrun og sagt henni að ef gengið yrði að kröfum hennar yrði hún hæst launaða konan. 

Já að vera hæst launaða konan er sambærilegt því að vera hæsti dvergurinn. Þú drukknar samt í djúpu vatni. Það er samt ennþá urmull af körlum sem eru með hærri laun en þú, segir Sofie Linde.

Notaleg kynferðisleg áreitni

„Við getum vel leikið leikinn að það sé jafnrétti í Danmörku og að konur og karlar fái sama viðmót og tækifæri. Þannig er það bara ekki í raunveruleikanum,“ sagði Linde einnig í títtnefndri ræðu. Dönum sé alltaf mikið í mun að hafa það huggulegt, ekki að vera með einhver leiðindi, ekki drepa stemninguna. 

Linde hefur útskýrt þetta nánar í viðtölum. Þar notar hún orðið hyggesexisme, notaleg kynferðisleg áreitni. Það hjómar sannarlega sem þversögn en það sem hún á við er að áreitni getur mjög oft verið beitt í gamni, pakkað inn í gott grín í góðra vinnufélaga hópi.

Það sem vakti ekki síst athygli í ræðu Linde er ekki bara umræðan um launamun kynjanna heldur lýsingar hennar á því sem konur geta lent í vilji þær komast áfram í starfi sínu. Það er saga frá því þegar hún var 18 ára og hafði nýverið hafið störf hjá Danmarks Radio, var ung og sæt og alls ekki ólétt eins og nú, eins og hún orðar það.

Á jólahlaðborði DR kom einn af þungavigtarstarfsmönnum stöðvarinnar til hennar, greip í höndina á henni og sagði, ef þú kemur ekki með mér út og tottar mig eyðilegg ég ferilinn þinn. Ég geri út af við þig. 

„Ég veit að þú ert að horfa núna og þú veist hver þú ert,“ ávarpaði Linde þennan ónafngreinda mann. „Og þú veist líka að ég sagði nei. En mér virðist hafa vegnað ágætlega samt sem áður.“ 

Fyrir þessa frásögn hafa fjölmargar danskar konur í fjölmiðlaheiminum, og reyndar víðar, hrósað Linde. Yfir 1.600 konur skrifuðu undir stuðningsyfirlýsingu vegna ræðunnar. Þær þekki sams konar samskipti. Þær kannist við aðfinnslur, áreitni og hótanir. 

Þú varst bara ráðin af því þú ert svo sæt.

Góðan daginn, eigum við að koma að ríða.

Rassinn á þér lítur mjög vel út í þessum buxum.

Konur geta ekki gert þetta almennilega. 

Þetta eru nokkur dæmi um ummæli sem danskar konur hafa eftir samstarfsmönnum sínum í fjölmörgum viðtölum sem hafa birtst í flestum dönskum miðlum undanfarna daga.

Mörg hafa hvatt Sofie Linde til að segja frá því hvaða kanóna þetta var úr röðum DR sem hótaði henni því að ferillinn hennar væri á enda ef hún væri ekki til í að sjúga á honum tippið á jólahlaðborðinu. Linde hefur hins vegar ekki nafngreint hann og ætlar ekki að gera það. Konurnar 1.615 sem skrifuðu undir áðurnefnda stuðningsyfirlýsingu styðja hana einnig í þeirri ákvörðun. Þær segja að málið snúist alls ekki um þennan eina mæta mann, öll athyglin megi ekki beinast að honum heldur verði að einblína á vandamálið sem heild. Fyrst konurnar 1.615 kannast allar við að hafa orðið fyrir einhvers konar áreitni eða misrétti kyns síns vegna ætti að vera ljóst að vandamálið er til staðar. Nú ríði á að finna leiðir til þess að uppræta vandann. 

Önnur #metoo-bylgja

Það er ekki bara kórónuveiran sem kemur í bylgjum, uppreisn gegn kynbundnu ofbeldi, áreitni og mismunun virðist gera það líka. 

Me Too er heitið sem við notum alla jafna, ég líka, stuðningsyfirlýsing fyrir þær konur sem stíga fram og segja sögu sína. Me Too, ég líka, í krafti fjöldans er hægt að sýna fram á hversu útbreitt og rótgróið vandamálið er víða í samfélaginu. Me Too, ég líka, við höfum allar lent í einhverju. 

Me Too var fyrst notað í þessum tilgangi í kringum árið 2006 þegar hin bandaríska Tarana Burke vakti máls á kynferðisofbeldi á netinu gegnum samskiptamiðilinn MySpace. Orðin tvö eru Burke hugleikin vegna samtals sem hún átti seint á tíunda áratugnum við unga stúlku sem leitaði til hennar. Stúlkan sagði henni frá misnotkun af hendi stjúpföður síns og Burke hlýddi á frásögn hennar og kom henni til ráðgjafa. Burke segist hins vegar alla tíð hafa séð eftir því að hafa ekki sagt þessi tvö orð við stúlkuna, ég líka, ég veit hvað þú ert að tala um, þú ert ekki ein. 

Síðar varð #metoo á allra vörum. Eftir að nokkrar leikkonur greindu frá ofbeldi og áreitni af hendi bandaríska kvikmyndaframleiðandans Harveys Weinstein var sem flóðgáttir opnuðust víða um heim. Konur stigu fram, flestar í hópum. Sóttu kraft í fjöldann og sögðu ég líka. 

Og nú, nokkrum árum eftir að #metoo-bylgjan náði heimsathygli, beinist kastljósið í Danmörku aftur að því sem umtalsvert betur megi fara þegar jafnrétti kynjanna er annars vegar. 

Stuðningsyfirlýsing starfssystra Sofie Linde er nefnilega ekki það eina sem hefur gerst síðan hún hélt þessa ræðu.

Á miðvikudag var kynferðisleg áreitni til umræðu í danska þinginu af þessu tilefni. Kynjamisrétti er óásættanlegt, sagði þingforsetinn Henrik Dam Kristensen. Ef það fyrirfinnst á danska þinginu ætlum við okkur að uppræta það. Þær eru nokkrar þingkonurnar sem hafa síðustu daga fullyrt að það jafnrétti sem Danir státa sig gjarnan af fyrirfinnist ekki alltaf innan veggja þingsins. 

Mogens Jensen, ráðherra jafnréttismála, boðaði Linde og fleiri fjölmiðlakonur á sinn fund og ætlar líka að funda með hæstráðendum í dönsku atvinnulífi vegna málsins. 

Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, birti svo færslu á Facebook í vikunni í tilefni af ræðu Sofie Linde. Hún sagði vandamálið fyrst og fremst liggja hjá þeim sem ekki vita hvar mörkin liggja. Þar á eftir koma þau sem einhverju ráða, þau sem stýra vinnustöðum eða öðrum sem leggja línur í samfélaginu, það er þeirra að tryggja að áreitni og önnur valdbeiting þrífist ekki. Þar á eftir sé mikilvægt að þau sem brotið er á, geti sagt frá því. 

Forveri hennar í starfi, Helle Thorning Schmidt, lagði einnig orð í belg og sagðist sjálf hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu. 

Tiltekt hefur einnig verið boðuð á mörgum dönskum miðlum. Fréttastjóri TV2, Jacob Kwon, blés til neyðarfundar á ritstjórn sinni til að ræða starfsumhverfi þegar samskipti kynjanna eru annars vegar.  TV2 er jafnframt sjónvarpsstöðin sem sýnir X-Factor, þáttinn sem Sofie Linde fékk ekki launahækkun fyrir að vinna við. Með þeim rökum að þá yrði hún hæst launaða konan. 

Vandin er þeirra sem ekki virða mörk

Ég veit ekki hvort samlíkingin að lítil þúfa velti oft þungu hlassi á vel við hér, ekki ætla ég að kalla frásagnir kvenna af áreitni og mismunun litlar þúfur. En frásagnirnar hafa margfeldisáhrif, þegar ein segir upphátt í hverju hún hefur lent er það styrkur fyrir aðrar að segja sams konar sögur. Þær eru ekki einar. Opinberar frásagnir geta líka haft þau áhrif að opna augu fólks sem býr við misrétti eða ofbeldi. Eitthvað sem fólk er orðið samdauna og telur bara vera hluta af bransanum sem það tilheyrir til dæmis. 

Á mánudag bárust hæstráðendum hjá DR bréf frá tíu konum sem voru í starfsnámi á fréttastofunni þar á árunum 2015 til 2019. Þær segjast í bréfinu ekki vilja þegja lengur. Nú, þegar umræðan um þessi mál hefur opnast, sé rétt að það sé sagt að þær hafi allar orðið fyrir eða orðið vitni að kynferðislegri áreitni á fréttastofu DR. Óumbeðið nudd og klapp á rassinn sé meðal þess sem starfsnemarnir fyrrverandi hafi orðið fyrir. Þær skrifa allar undir bréfið en þegar fjölmiðlar vildu fjalla um málið og heyra þeirra hlið vildu einungis fjórar þeirra koma fram undir nafni. Hinar voru hræddar um að fækka atvinnumöguleikum sínum innan bransans, vera konurnar sem eru með vesen. 

Það kallast á við ræðu Sofie Linde, hún sagði nokkrum sinnum, ég vil ekki vera að drepa stemninguna, ég vil ekki vera með einhver leiðindi hérna. 

En, eins og síðast, eru allir sammála um að breytinga sé þörf. Fréttastjórar, ráðherrar og fleiri og fleiri eru á einu máli um að þetta sé ólíðandi, launamunur kynjanna, kynbundin áreitni og ofbeldi. Þetta eigi ekki að fyrirfinnast. Lög og reglur, umræða og vitundavakning, allt er það auðvitað gott og blessað. En ætli forsætisráðherrann Frederiksen hafi ekki hitt naglann á höfuðið.

Vandinn liggur fyrst og fremst hjá þeim sem telja sér í sjálfsvald sett hvar mörk í samskiptum liggja. Þeim sem ekki virða mörk annara og þeirra sem láta það óáreitt. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV