Óttast að önnur bylgja sé í uppsiglingu í Stokkhólmi

22.09.2020 - 22:13
epa08336698 People sit at an outdoor restaurant in Kungstradgarden park in Stockholm, Sweden, 27 March 2020 (issued 01 April 2020), amid the coronavirus pandemic. Countries around the world are taking measures to contain the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus which causes the Covid-19 disease.  EPA-EFE/Henrik Montgomery  SWEDEN OUT SWEDEN OUT
Stjórnvöld í Svíþjóð hafa enn ekki fyrirskipað að fyrirtækjum, þar með töldum kaffihúsum, skuli lokað. Mynd: EPA-EFE - TT Scanpix
Yfirvöld í Stokkhólmi hafa áhyggjur af fjölgun kórónuveirusmita í sænsku höfuðborginni. Yfirmaður heilbrigðismála í borginni óttast að önnur bylgja farsóttarinnar sé að byrja. Haldi kúrfan áfram að fara upp geti staðan orðið alvarleg. Hann segir að ein leiðin til að hefta útbreiðslu veirunnar í borginni sé að allir á heimili einstaklings sem greinist með COVID-19 fari í einangrun.

Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svía, sagði á blaðamannafundi í dag að það kæmi til greina að herða aðgerðir í Stokkhólmi vegna útbreiðslu veirunnar þar.  Eftir að fjöldi smita hefði verið á niðurleið að undanförnu væri kúrfan á uppleið aftur.

Allir á heimilinu í einangrun

Björn Eriksson, yfirmaður heilbrigðismála í Stokkhólmi, sagði á blaðamannafundi í dag að viðvörunarbjöllurnar væru farnar að hringja. Vissulega væri verið að taka fleiri sýni en fyrir hálfum mánuði hefðu 1,3 prósent sýna verið jákvæð, í síðustu viku  2,2  prósent. Núna væri þetta hlutfall orðið 4,3 prósent.  „Þetta eru enn lágar tölur en þær eru á uppleið,“ sagði Eriksson.

Nú væru 27 á sjúkrahúsi og 2 á gjörgæsludeild. Þetta væru ekki margir enn sem komið er miðað við stöðuna eins og hún var verst í vor þegar 1.100 voru á sjúkrahúsi. 

Eriksson viðraði áhyggjur sínar af þeim sem teldu að það versta væri yfirstaðið því það gæti leitt til þess að veiran breiddist út til fólks í viðkvæmum hópum.

Í viðtali við sænska ríkisútvarpið SVT í kvöld nefndi Eriksson að einn möguleikinn til að berjast gegn útbreiðslu veirunnar væri að allir á heimili einstaklings sem greindist með kórónuveiruna færu í einangrun. 

Ef smitum færi að fjölga verulega yrði gripið mjög fljótt til aðgerða. Sjálfur  hefði hann áhyggjur af því að þetta væri upphafið á annarri bylgju faraldursins. „Þess vegna er mikilvægt að fólk taki sig á svo hægt sé að komast hjá frekari aðgerðum.“

Sumir öfunda Svía - aðrir ekki

Fram kemur á vef DR að Svíþjóð sé með eitt lægsta nýgengi smita í Evrópu miðað við hverja 100 þúsund íbúa á viku.

Lone Simonsen, prófessor við háskólann í Hróarskeldu,  telur að þetta sýni að „sænska leiðin“ hafi verið rétt. Þetta megi meðal annars rekja til þess að samkomutakmarkanir hafi alltaf verið miðaðar við 50 manns. 

Kim Sneppen, prófessor við Niels Bohr-stofnunina, bendir jafnframt á að hinir svokölluðu „ofurdreifarar“ hafi fengið veiruna í vor og hafi því ekki lengur áhrif á útbreiðslu veirunnar nú. Ofurdreifarar er fólk sem fer víða og er því líklegt til að smita marga. 

Gefur lítið fyrir rökin um milda flensu

Aðrir danskir sérfræðingar eru ósammála og telja enga ástæðu til að öfunda Svía.

Viggo Andersen, prófessor í faraldsfræði við Hróarskeldu-háskólann, bendir til að mynda á að talan yfir fjölda látinna væri mun hærri í Danmörku ef sænska leiðin hefði orðið fyrir valinu.

Þá gefur hann lítið fyrir þau rök Tegnell að ástæðan fyrir hárri dánartíðni í Svíþjóð megi rekja til þess að árstíðabundin inflúensa þar hafi verið vægari en víðast hvar á Norðurlöndum síðustu tvö til þrjú ár. „Þetta gerðist líka í Danmörku. Inflúensan hér var líka mild.“ Á það er þó bent í umfjöllun DR að inflúensan 2017/2018 hafi verið óvenju skæð.

Andersen segir að það hljóti líka að vera áhyggjuefni að ef Svíar séu með þrisvar til fjórum sinnum fleiri smit hljóti hlutföllin að vera þau sömu yfir þá sem þjáist af eftirköstum veirunnar. 

Nýleg rannsókn King's College í Lundúnum á 8.000 sjúklingum sýndi að einn af hverjum tíu þjáist af ýmsum kvillum eftir að hafa náð sér af veirunni.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi