Mannúð vantar í flóttamannastefnu Evrópuríkja

22.09.2020 - 11:18
Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Veruleg tregða er við að opna nokkurn alþjóðasáttamála vegna ótta við að mannréttindum geti hreinlega farið aftur. Því gæti verið ástæða til að hafa áhyggjur af því hvað tekur við af Dyflinnarreglugerðinni í málefnum hælisleitenda, og því hvernig Evrópusambandið ætli að ná fram einhverju sem sé raunverulega mannúðlegra en kerfið sem nú er við lýði.

Þetta kom fram í máli Ásdísar Ólafsdóttur, sem starfar hjá International Crisis Group í Brussel, á Morgunvaktinni í morgun. Ásdís ræddi þar um flóttamannamál, bæði á heimsvísu og á Íslandi. 

Fyrir dyrum stendur endurskoðun á fyrirkomulagi í málefnum hælisleitenda. Búa á til nýtt kerfi sem tekur við af Dyflinnarreglugerðinni. Samkvæmt henni ber eitt ríki ábyrgð á umsókn fólks um alþjóðlega vernd, svo að fólk sé ekki með mál í vinnslu í mörgum ríkjum í einu. Þetta var talið öllum til góða, segir Ásdís. Það sé hins vegar ekkert sem segi að það sé skylda að þetta ríki, ríkið sem viðkomandi kemur fyrst til innan Evrópu, þurfi að bera ábyrgðina. Öðrum ríkjum sé sannarlega heimilt að létta byrðinni af hinum ríkjunum. Ríki Evrópu hafi hins vegar ákveðið að túlka hana og framkvæma með öðrum hætti, þannig að fólk sé yfirleitt sent aftur til fyrsta viðkomuríkis. 

Því þarf Ísland að ákveða hvaða skilaboð fara eigi með inn í endurskoðun þessara mála. Fyrir þremur árum hafi Ísland lýst yfir efasemdum um þær breytingar sem þá stóð til að gera á Dyflinnarreglugerðinni. 

Einstöku dæmin benda á kerfisvillur 

Ásdís segir að passa þurfi hvernig rætt sé um þessi mál og gera þurfi sömu kröfur á stjórnsýsluna og stjórnmálin í þessum málum eins og öðrum sem varða líf fólks. Hún tók dæmi af egypskri fjölskyldu sem nú er í felum hér á landi til að fresta brottflutningi frá landinu. Dómsmálaráðherra hafi sagt í tengslum við það mál að ekki væru gerðar breytingar á reglugerðum til að bjarga einstaka fjölskyldum. 

„Við erum alltaf að breyta kerfum þegar upp kemst í gegnum einstaka mál að kerfið virkar ekki sem skyldi. Við getum skoðað rosalega alvarlegt mál sem kom nýlega upp, sem eru þessar krabbameinsskimanir hjá Krabbameinsfélaginu. Hvernig komumst við að því? Það er fyrst mál einstaka konu sem lést af því að mistök voru gerð í kerfinu. Og við getum ekki ímyndað okkur að heilbrigðisráðherra stígi fram og segi: Vitið þið, við skoðum ekki reglugerðir út frá einstaka málum. Að sjálfsögðu ekki, það er ekki ásættanlegt svar stjórnsýslu,“ sagði Ásdís. 

Hún gagnrýndi líka svör Útlendingastofnunar um að fjölskyldan hefði ekki viljað endurnýja vegabréf sín í egyska sendiráðinu. „Við biðjum ekki sjúkling sem er á leiðinni í stóra aðgerð á Landspítalanum að koma við í Lyfju Lágmúla að kaupa grisjur, eða einhvern sem er á leið í afplánun á Litla-Hrauni að koma við í Byko af því að það vill svo til að lásinn er bilaður. Við biðjum ekki einstaklinga að stíga inn í verk stjórnsýslunnar. Það er stjórnsýslu- og verulega íþyngjandi ákvörðun að vísa fólki úr landi.“

Ásdís sagði mál egypsku fjölskyldunnar hafa varpað ljósi á brotalöm í kerfinu, sem Rauði krossinn hafi reyndar lengi bent á. Það sé það hversu lengi stoðdeild ríkislögreglustjóra megi vera að framkvæma brottvísun, sama hver ástæðan sé. 

„Það er barnafólk á Íslandi núna sem er búið að bíða í á annað ár. Þetta fólk nýtur mjög takmarkaðra réttinda, það má ekki vinna eða vinna að takmörkuðu leyti, ég er ekki viss um að það fái kennitölu,“ segir Ásdís. „Við höldum börnum í þessari stöðu.“ 

Asdis Olafsdottir
 Mynd: Ásdís Ólafsdóttir
Ásdís Ólafsdóttir yfirmaður stafrænna miðla hjá International Crisis Group
thorunneb's picture
Þórunn Elísabet Bogadóttir
dagskrárgerðarmaður
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi