Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Líkja ástandi í flóttamannabúðum við helvíti á jörð

22.09.2020 - 10:01
Mynd: EPA / EPA
Sjötíu og níu og hálf milljón manns voru á flótta í heiminum í lok árs 2019. Þar af eru 46 milljónir í þeirri stöðu að vera á flótta innan síns heimalands. Læknar án landamæra hafa líkt ástandinu í flóttamannabúðum á Lesbos og Moria við helvíti á jörð.

Ásdís Ólafsdóttir, yfirmaður stafrænna miðla hjá International Crisis Group í Brussel, segir að  þegar talað sé um fólk á flótta séu langflestir á flótta innan heimalands síns, eða 46 milljónir af þeim tæplega 80 milljónum sem eru á flótta í heiminum.

„Oft er fólk að flýja verstu átökin eða átakasvæðin en það er samt enn þá mikið óöryggi þar sem það er. Við vitum að 80 prósent af öllum, bæði flóttamönnum og þeim sem eru á flótta innanlands, búa við mataróöryggi eða hreinlega næringarskort. Það er ofboðslega erfið staða. Það sem við oftar horfum á og hefur meiri áhrif á umræðuna á Íslandi það eru þessar 26 milljónir manna sem eru flóttamenn. Það er áhugavert og sláandi, það er hreinlega eitt prósent mannkyns sem er á flótta, ef við skoðum bæði þá sem eru flóttamenn og eru á flótta innan síns heimaríkis.“ segir Ásdís.

Stríð hefjast ekki á einum degi

Hún segir að hún og samtökin sem hún starfar fyrir séu sannfærð um að það sé skynsamlegra og betra að fjárfesta þannig að komist verði fyrir fólksflótta og að stríð brjótist út. Stríð hefjist ekki á einum degi.

„Það er alltaf eitthvað sem leiðir okkur þangað. Spennan er að byggjast upp, átökin að magnast, og það er algjör örvænting sem leiðir fólk á þann stað að taka upp vopn gegn hvort öðru. Og það sem við vitum er að það eru oftast nágrannaríki sem lenda í því að taka á móti fólki þegar vopnuð átök brjótast út. Tyrkland, það eru 3,6 milljónir þar, sem er með landamæri við Sýrland. Í Kólumbíu eru tæpar tvær milljónir, sem er með landamæri við Venesúela. Þessi tvö ríki bera mikinn þunga og við vitum að það séu tæpar sjö milljónir Sýrlendinga á flótta og tæplega fjórar milljónir Venesúelabúa á flótta. Þessar krísur og vopnuð átök sem þar eiga sér stað leiða til gríðarlegra fólksflutninga.“ 

Í Líbanon hafa miklar hörmungar gengið yfir land og þjóð. Þar braust út borgarastyrjöld og svo varð sprenging á hafnarsvæðinu í Beirút fyrr í sumar. Þar í landi eru þrjátíu prósent íbúa landsins á flótta, eða um ein milljón manns. 

Fólk girt af með gaddavír

Mikil umræða hefur átt sér stað um stöðu flóttafólks í Grikklandi. Ástandið í flóttamannabúðum hefur verið viðkvæmt og eldar kviknað í flóttamannabúðum. Í Grikklandi eru 50 þúsund manns á flótta.

„Ef við setjum þá tölu í samhengi við aðrar tölur þá er það mun minna, en fyrir ríki eins og Grikkland sem er mjög viðkvæmt, með erfiða efnahagsstöðu og ekki svo stórt land þá er þetta mikill þungi að bera. Við vitum líka að 38 þúsund af þessum 50 þúsund eru á meginlandinu, en hinum er haldið á eyjum, eins og til dæmis Lesbos og Moria. Þarna eru um 11-12 þúsund manns, þar af um fjögur þúsund börn. Þessum búðum hafa læknar á landamæra líkt við helvíti á jörðu,“ segir Ásdís.

Hún segir alla þá sem dvelja í búðunum vera með umsókn um alþjóðlega vernd og á meðan það er í afgreiðslu fær fólk ekki að fara af eyjunni. 

„Og það eru hreinlega gaddavírar. Það er girðing í kringum sumar af þessum búðum. Þarna er oft lítið sem ekkert rennandi vatn. Það eru mörg hundruð manns sem deila klósetti. Tugir ef ekki hundruð sem deila sturtu. Börn eru böðuð úti í bala í forarsvaði,“ segir hún.

Framtíð flóttamannamála í endurskoðun innan ESB

Framtíð Dyflinnar-reglugerðarinnar hefur verið til umræðu. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefur boðað breytingar á hælisleitendakerfi sambandsins. Hún tilkynnti í umræðum eftir stefnuræðu sína á dögunum að Dyflinnar-reglugerðinni verði skipt út. Breytingar hafa verið gerðar áður á reglugerðinni. Ásdís segir að hugsun á bak við reglugerðina sé ekki vond.

„Hugsunin var sú að það væri bæði hagur einstaklinga og ríkja að manneskjan væri ekki með umsókn í gagni í mörgum aðildarríkjum. Þannig að það væri eitt ríki sem bæri ábyrgð á hverri umsókn. Þá þótti liggja beinast við að það væri ríkið þar sem fólk kæmi. En það er ekkert sem segir að það sé skylda að það ríki beri ábyrgð og öðrum ríkjum er svo sannarlega heimilt að létta byrðina af þeim ríkjum sem hafa þurft að bera holskefluna. Það er ekkert í Dyflinni sem segir að við verðum að framkvæma hana eins og hún hefur svo verið framkvæmd í raun af aðildarríkjum ESB,“ segir Ásdís.

Viðtal við Ásdísi í heild má heyra í spilaranum hér að ofan.