Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Jafntefli gegn Svíum í undankeppni EM

22.09.2020 - 20:06
Ísland og Svíþjóð gerðu jafntefli, 1-1, í undankeppni EM kvenna í fótbolta á Laugardalsvelli í kvöld. Elín Metta Jensen skoraði jöfnunarmark Íslands á 61. mínútu eftir að Anna Anvegard hafði komið Svíum yfir á 33. mínútu.

Íslenska liðið lék virkilega vel, sérstaklega í seinni hálfleik og var óheppið að skora ekki sigurmark á lokamínútunum. Þá var mark dæmt af Íslandi á 42. mínútu sem þótti umdeildur dómur. Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eftir hornspyrnu en Glódís Perla var dæmd brotleg á markmanni Svía.

Almenn ánægja er með frammistöðu íslenska liðsins sem hefði átt skilið að vinna Svía, bronslið HM 2019 og eru í fimmta sæti á heimslistanum, styrkleikalista FIFA, þar sem Ísland er í 19. sæti.

Úrslitaleikur í Svíþjóð 27. október

Úrslitin þýða að Svíþjóð og Ísland eru jöfn að stigum á toppi riðilsins með 13 stig en liðin eiga eftir að mætast í Svíþjóð, 27. október n.k. Svíar eru með betri markatölu og sitja því í toppsætinu en Ísland í 2. sæti.

Sigurvegari hvers riðils tryggir sér þátttökurétt á EM 2022 auk þeirra þriggja liða sem eru með bestan árangur í 2. sæti í riðlunum níu. Önnur lið fara í umspil.

Ungverjar burstuðu Letta

Fyrr í dag unnu Ungverjar 5-0 útisigur á Lettum í sama riðli og eru Ungverjar í þriðja sæti með 7 stig, 6 stigum á eftir Íslandi og Svíþjóð sem eiga þó leik til góða á Ungverja. Baráttan um toppsætið í riðlinum er því nær alfarið á milli Svía og Íslendinga.

STAÐAN Í RIÐLINUM