Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Húsleit í Kanada vegna risín sendingarinnar til Trumps

22.09.2020 - 01:29
epa04538195 The logo of the Federal Bureau of Investigation (FBI) at the J. Edgar Hoover FBI Building in Washington DC, USA, 22 December 2014.  EPA/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA - EPA
Húsleit var gerð á heimili nærri Montreal í Kanada í dag. Ástæðan er grunur um tengsl húsráðanda við sendingu bréfs til Donalds Trump Bandaríkjaforseta, sem talið er hafa innihaldið banvæna eitrið risín. Grunurinn hefur þó ekki fengist staðfestur.

Að sögn kanadísku riddaralögreglunnar leitaði hún í húsinu að undirlagi bandarísku Alríkislögreglunnar FBI í kjölfar þess að fransk- kanadísk kona var handtekin á leið yfir landamærin til Bandaríkjanna, grunuð um að vera sendandi eiturbréfanna.  

Konan hefur verið nafngreind í kanadískum miðlum sem Pascale Ferrier og hafði skotvopn í fórum sínum þegar hún var tekin höndum. New York Times segir hana hafa búið í Bandaríkjunum um tíma en var vísað þaðan á síðasta ári vegna ólöglegs athæfis og útrunnins dvalarleyfis.  

Til stóð að konan yrði leidd fyrir dómara á þriðjudag en því hefur verið frestað fram á miðvikudag. Fulltrúar kanadísku lögreglunnar vilja ekki staðfesta að húsið sé heimili handteknu konunnar en leitað var að sýnum sem bent gætu til tengsla við sendinguna til Hvíta hússins.  

Lögreglumenn í Texas fengu samskonar sendingu en engum varð meint af. Lögregluyfirvöld þar hafa ekki viljað tjá sig um málið vegna yfirstandandi rannsóknar Alríkislögreglunnar.  

 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV