Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

COVID-19 og ósammála vísindamenn

22.09.2020 - 18:51
Mynd: EPA-EFE / EPA
Það hefur verið viðloðandi ágreiningur í bresku stjórninni um hvernig eigi að taka á veirufaraldrinum. Stjórnin hefur gjarnan vísað til vísindamanna um úrræði en nú er ljóst að tvær fylkingar vísindamanna greinir á um bestu leiðina til að hefta útbreiðslu veirunnar.

Bretar glíma við uppsveiflu veirutilfella

Önnur COVID-19 alda er ekki lengur fræðilegur möguleiki í Bretlandi, hún hefur dunið yfir. Tilfellum fjölgar hratt og minnir skyndilega á ástandið í apríl. Dagleg tilfelli eru nú um fjögur þúsund eftir að hafa í kringum þúsund undanfarnar margar vikur.

Samspil veirutilfella og dauðdaga

Í gær lýstu helstu veiruráðgjafar ríkisstjórnarinnar, þeir Chris Whitty landlæknir Englands og Patrick Vallance vísindalegur ráðgjafi, ástandinu. Vallance benti á að nú tvöfaldist smitin á viku. Um miðjan október má þá búast við tæplega fimmtíu þúsund nýjum tilfellum, daglega. Um miðjan nóvember mætti þá búast við 200 COVID-19 dauðsföllum daglega. Whitty undirstrikaði að vandinn væri að finna rétta jafnvægið, gera hvorki of lítið né of mikið, því hvort tveggja hefði slæmar afleiðingar.

Nýjar og hertar aðgerðir

Þetta var sviðsetningin áður en Boris Johnson forsætisráðherra kynnti nýjar aðgerðir í þinginu í dag, mun síðan ávarpa þjóðina í kvöld. Í upphafi ræðu sinnar hnykkti hann líka á jafnvægi. Jafnvægi þess að bjarga mannslífum, vernda heilbrigðiskerfið og að áhrif takmarkana séu heppileg.

Stíf fundahöld til að sameinast um nýjar aðgerðir

Aðgerðir koma í kjölfar stífra fundarhalda í Downing stræti um helgina um hvar og hvernig ætti að herða aðgerðir. Annars vegar sjónarmið Rishi Sunak fjármálaráðherra að kyrkja ekki efnahagsbatann. Hins vegar forsætisráðherra, sem er vissulega andsnúinn því að leggja hömlur á fólk, en vill þó ekki horfa aðgerðarlaus upp á óðafjölgun tilfella.

Samskiptahömlur og sektir

Um allt land er verið að herða veiruaðgerðir. Í Englandi mega undir engum kringumstæðum fleiri en sex manns saman í hóp, heima eða heiman en í heild mega þó vera fleiri á veitingahúsum og öðrum stöðum. Nú hafa fyrirmælin lagagildi, ekki aðeins tilmæli eins og áður. Líka hörð viðurlög við að brjóta reglur, til dæmis sekt upp á 10 þúsund pund, tæpar tvær milljónir króna, fyrir að brjóta reglur um sóttkví. Skylda að vera með grímu í búðum og leigubílum, líka á veitingahúsum nema þegar snætt er. Ekki nýjar reglur en nú á að ganga harðar eftir að þeim sé fylgt og beita sektum fyrir ítrekuð brot. Það vekur athygli að forsætisráðherra nefndi að beita mætti hernum ef lögreglan nær ekki að sinna skyldum sínum.

Hertar aðgerðir en ekki al-lokanir eins og í mars

Boðskapur forsætisráðherra er að ekki sé verið að snúa aftur til fyrri al-lokana frá í mars. Allt áfram opið sem nú er, en krár, barir og veitingahús verða að loka og slökkva kl. 10. Í sumar lagði stjórnin hart að fólki að fara að mæta aftur í vinnuna til að fá hjól efnahagslífsins til að snúast hraðar, jafnvel líka ætlunin að vera með herferð fyrir þessu. Nú er komið annað hljóð í strokkinn: vinnið endilega að heiman ef þið getið, sagði forsætisráðherra.

Hætt við áætlaðar tilslakanir

Í byrjun október stóð til að leyfa um þúsund manns að fara á völlinn á nokkrum stöðum í tilraunaskyni. Það verður ekki og langar horfur á að það gerist. Allir þurfa að hafa varann á sér, sagði forsætisráðherra, andvaraleysið er hættulegt.

Einmanalega jól í augsýn

Ef einhverjir voru farnir að hlakka til jólanna þá er allt sem bendir til að þetta verði jólin fyrir aðeins sex saman, ef ekki verður jólaundantekning. Forsætisráðherra sagði að kapp yrði lagt á að þróa bóluefni, lækningaaðferðir og skimun. Ef ekki yrðu áþreifanlegrar framfarir mætti búast við að nýju reglurnar gildi í sex mánuði. Nei, veiran verður ekki að baki um jólin eins og forsætisráðherra taldi glaðbeittur í sumar. Og þingheimur fékk glaðning. Margir stjórnarþingmanna gramir að þingið ræði ekki aðgerðir. Nú lofar forsætisráðherra að svo verði.

Nýr tónn í veiruumræðunni: ósammála vísindamenn

Hinn nýi tónn í veiruumræðunni bresku er að vísindamenn eru ekki lengur sammála um hvað sé best að gera; 32 vísindamenn hafa skrifað opið bréf til ráðamanna og bent á að í ljósi þess að COVID-19 veiran sé einkum hættuleg eldra fólki ætti ekki að leggja íþyngjandi hömlur á alla. Hópur 23 vísindamanna hefur svo svarað þessu, styður ráðstafanir stjórnarinnar. Forsætisráðherra hefur lagt áherslu á að fylgja ráðum vísindamanna. Það er ekki jafn auðvelt og áður.