Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðhaldsaðgerðir fyrsta verk nýrrar bæjarstjórnar

22.09.2020 - 19:28
Mynd: RÚV / Gunnlaugur Starri Gylfason
Bæjarfulltrúar á Akureyri hafa ákveðið að afnema meirihluta og minnihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Með því er ætlunin að ná betur utan um þann mikla hallarekstur við blasir við sveitarfélaginu.

Stærstu embætti óbreytt

Ný bæjarstjórn var kynnt á blaðamannafundi í menningarhúsinu Hofi í dag. Þar var núverandi meirihluti lagður niður og ný samstjórn allra flokka kynnt. Ellefu bæjarfulltrúar sitja í bæjarstjórn. Eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar mynduðu Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og L-listi meirihluta. Minnihlutann skipuðu Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri græn og Miðflokkurinn. Þær blokkir hafa verið lagðar niður. Embætti stærstu ráða og stjórna haldast óbreytt en þeir sem áður voru í minnihluta taka við formennsku í fimm stjórnum og ráðum. 

Forseti bæjarstjórnar fagnar breytingunni

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar og oddviti L-listans fagnar þessum breytingum. „Við stöndum frammi fyrir stórum verkefnum, bæði vegna faraldursins og þeirra aðstæðna sem samfélagið er í í dag og við teljum að við náum betri árangri ef við stöndum öll saman að þeim verkefnum,“ segir Halla Björk.

Aðhaldsaðgerðir framundan

Í stjórnarsáttmála nýrrar bæjarstjórnar kemur fram að grípa þurfi til aðhaldsaðgerða enda stefnir í að halli bæjarins á þessu ári verið nálægt þremur milljörðum króna. Meðal aðgerða sem á að grípa til eru sala húsnæðis, endurskoðun launa æðstu embættismanna og hækkun gjaldskrár. Í samstarfssáttmála nýrrar stjórnar er framtíðarsýn til næstu fimm ára lögð fram. Þar segir: 

• Rekstur Akureyrarbæjar verði fjárhagslega sjálfbær og vörn verði snúið í sókn
• Akureyrarbær verði þekktur fyrir framúrskarandi skóla, lífsgæði og góða þjónustu með
áherslu á stafrænar lausnir og íbúasamráð
• Samkeppnishæfni sveitarfélagsins verði með þeim hætti að fyrirtæki og stofnanir telji
sveitarfélagið fýsilegan kost fyrir starfsemi sína, þannig að fjölbreyttum störfum fjölgi
• Staðinn verði vörður um viðkvæma hópa samfélagsins, hagsmunir barna og
ungmenna verði settir í forgang og blásið til sóknar á íbúa- og atvinnumarkaði. 

Verk að vinna

Gunnar Gíslason, oddviti Sjálfstæðisflokksins segir ærin verkefni framundan, sérstaklega þegar kemur að fjárhagsstöðu bæjarins. „Það er nú eitt af því sem þetta samkomulag gengur út á. Það er að ná samstöðu um það í hvaða aðgerðir við förum til þess að snúa þessari þróun við,“ segir Gunnar. 

„Hér mun myndast meirihluti í kringum mál“

Sóley Björk Stefánsdóttir, oddviti Vinsti grænna óttast ekki að með einni samstjórn hverfi skoðanaskipti. „Ég reikna ekki með því að við náum fullri samstöðu í öllum málum, hér mun myndast meirihluti í kringum mál og ef að ég er ekki sammála einhverjum málum mun ég ekkert liggja á þeim skoðunum,“ segir Sóley.