200 þúsund dauðsföll af völdum COVID-19 í Bandaríkjunum

epaselect epa08688700 Thousands of US national flags are placed to memorialize Americans that died with COVID-19; near the base of the Washington Monument on the National Mall in Washington, DC, USA, 22 September 2020. The 'COVID Memorial Project' installed 20,000 flags near the Washington Monument to memorialize the two hundred thousand people in the United States who have died with COVID-19.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
Mynd af minningarreit í Washington um þá sem hafa dáið úr COVID-19 í Bandaríkjunum. Mynd: EPA-EFE - EPA
200 þúsund hafa látist af völdum COVID-19 sjúkdómsins í Bandaríkjunum og meira en 6,8 milljónir hafa greinst með veiruna og eru staðfest smit hvergi fleiri. Þetta kemur fram á vef Johns Hopkins-háskólans. Kórónuveirusmitum fer nú fjölgandi í ríkjum eins og Utah og Norður -Dakóta. Bandaríkjaforseti sagði í mars að ef dauðsföllin yrðu á bilinu 100 til 200 þúsund væri það vísbending um að yfirvöld hefðu staðið sig vel.

BBC greinir frá.  Fram kemur á vef New York Times að 428 hafi látist af völdum COVID-19 síðasta sólarhringinn og rúmlega 54 þúsund greinst með veiruna. 

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sætt harðri gagnrýni fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Guardian rifjar upp að í apríl hafi forsetinn spáð því að á bilinu 60 til 65 þúsund myndu deyja. „Einn er of mikið. Ég hef alltaf sagt það. Einn er of mikið.“ Þessi spá forsetans rættist í maí, aðeins tveimur vikum eftir að hann lét ummælin falla.

Fram kemur á vef Washington Post að svo virðist sem Bandaríkjamenn hafi glatað voninni um að farsóttin heyri brátt sögunni til. Leitarniðurstöður á Google um kórónuveiruna hafi til að mynda dregist saman um 90 prósent síðan í mars.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að 1 af hverjum 50 Bandaríkjamönnum hafa greinst með kórónuveirusmit og talið er líklegt að þeir séu mun fleiri þar sem ekki hafa allir komist í sýnatöku. Í lok ágúst sagðist 59 prósent landsmanna í könnun Ipsos að þeir þekktu einhvern sem hefði sýkst af veirunni. Fjórðungur þekkti einhvern sem hefði dáið úr COVID-19.

Faraldurinn verður í aðalhlutverki í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í byrjun nóvember. Joe Biden, forsetaefni Demókrata, hefur verið ómyrkur í máli í garð forsetans. „Vegna lyga Donalds Trumps og getuleysi síðustu sex mánuði hafa Bandaríkin upplifað sinn mesta missi í sögunni,“ sagði Biden á mánudag, að því er fram kemur á vef BBC.

Trump sagði sama dag að viðbrögð stjórnvalda hefðu verið stórkostleg og hann gæfi sjálfum sér hæstu einkunn. „Við erum að nálgast endalokin á þessum faraldri, með eða án bóluefnis.“  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi