Tólf ára töfrar fram búninga

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Tólf ára töfrar fram búninga

21.09.2020 - 07:30

Höfundar

„Þetta byrjaði allt þegar ég byrjaði að búa til lítil hús úr pappakössum, síðan einn daginn þegar var öskudagur þá hugsaði ég bara: „Heyrðu, ég get bara búið til minn eigin búning. Það gekk nú býsna vel og ég ákvað að gera önd,“ segir hin 12 ára gamla Katrín Arnbjarnardóttir. Hún hefur frá tíu ára aldri skapað hinar ýmsu furðuverur með því að hann og sauma búninga.

Landinn hitti Katrínu á heimili hennar á Seltjarnarnesi og fékk að skoða búningana sem eru hinir glæsilegustu. Katrín byrjar hönnun sína á því að teikna upp búninginn sem hún vill gera. „Oftast byrja ég á að gera þetta á blað með blýanti,“ segir hún. „Ég byrja alltaf að hugsa hvaða dýr vil ég hafa, hvaða tegund? Og eins og með þennan hér þá hugsaði ég: Ó, ég vil kannski bara hafa hund. Ég gerði það ekkert meira flóknara.“ Hún segir svo jafnan bætast við hönnunina meðan á hönnunarferlinu stendur.

Útilokar ekki að gerast búningahönnuður

Katrín notar alls kyns efni við búningagerðina og endurnýtir mikið. Hún útilokar ekki að gerast búningahönnuður í framtíðinni enda náð mikilli færni þrátt fyrir ungan aldur. „Það gæti alveg vel verið. Ég byrja að bæta og bæta mig þá gæti ég kannski farið að selja þetta bara.“