Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir útlit fyrir að smitum fækki í dag

21.09.2020 - 08:31
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að vel hafi tekist að rekja smit í þeirri bylgju faraldursins sem nú gengur yfir. Hann á von á því að fjöldi smita eigi eftir að lækka miðað við bráðabirgðatölur frá því í gær.

 

Hann segir að rót smita megi að langstærstum hluta rekja til skemmtistaða og því hafi það verið metið sem svo að ráðlegt væri að fara fram á lokun þeirra næstu daga. 

„Þá er það ljóst að rótin er þar og þess vegna til að geta stoppað þetta þá verður náttúrulega að stoppa uppsprettuna fyrst og vinda okkur svo í tilfellin“ segir Þórólfur.

Hann lagði það til við ráðherra að lokunin skemmtistaða verði framlengd um viku til viðbótar. Enn sé verið að ná utan um þann hóp sem tengist skemmtistöðunum með einum eða öðrum hætti. Ekki sé farið að sjá fyrir endann á umfangi smitanna. Á bilinu 100-200 manns tengist börunum þar sem smitin komu upp. Vel gangi að rekja smitin. Hann telur ekki þörf á að  herða almennar aðgerðir að svo stöddu, frekar að beina aðgerðum að þeim hópum og stöðum sem smit hafa greinst undanfarna daga.

„Og þá held ég að það sé miklu skynsamlegra að einblína á þann hóp heldur en að taka bara allt samfélagið eða stærsta hluta samfélagsins og beita hörðum aðgerðum. Allavega á þessu stigi. Við fengum þennan topp þarna í fyrradag, sem var vissulega mjög hár. Svo lækkaði það um 50 prósent í gær og bráðabirgðatölur núna, við eigum eftir að skoða þetta betur, við höfum allavega ekki hækkað, við höfum sennilega lækkað eitthvað frekar.“ segir Þórólfur. 

Tveir liggja inni á sjúkrahúsi. Þeir eru að sögn Þórólfs ekki alvarlega veikir. Margir starfsmenn Landspítala og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar eru í sóttkví og það hefur áhrif á starfsemina.

„Ef við ætlum að beita þessari sóttkví, eins vel og við getum, þá getur það  raskað starfsemi en menn eru búnir að skipuleggja sig mjög vel og undirbúa það að halda starfseminni gangandi. Það er líka búið að virka bakvarðasveit félagsþjónustunnar sem var sett á laggirnar í vetur. Þannig að við höfum einstaklinga sem geta hlaupið inn svo að það verði eins lítil röskun á starfseminni og mögulegt er.“ segir Þórólfur.

Rætt var við Þórólf á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.