Refsiaðgerðir ræddar í Brussel

21.09.2020 - 11:04
epa08685621 European High Representative of the Union for Foreign Affairs, Josep Borrell (R) and Belarusian opposition leader Sviatlana Tsikhanouskaya during of an informal breakfast with EU Foreign affairs ministers in Brussels, Belgium, 21 September 2020.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
Svetlana Tikanovskaja og Josep Borrell á fundinum í morgun. Mynd: EPA-EFE - EPA
Svetlana Tikanovskaja, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi, ræddi við Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins og utanríkisráðherra aðildarríkja, á morgunvarðarfundi í Brussel í morgun um ástandið í heimalandi hennar. Ræddar verða refsiaðgerðir gegn ráðamönnum í Hvíta-Rússlandi í dag.

Borrell lagði á það áherslu að fundi loknum að Evrópusambandið viðurkenndi ekki úrslit forsetakosninganna í Hvíta-Rússlandi í síðasta mánuði og sagði sambandið styðja kröfur stjórnarandstæðinga um frjálsar og lýðræðislegar kosningar í landinu.

Utanríkisráðherrarnir ætla í dag að ræða stöðu mála í Hvíta-Rússlandi og er búist við að samþykktar verði refsiaðgerðir gegn ýmsum ráðamönnum þar, þar á meðal ferðabann og frystingu eigna í Evrópusambandsríkjum. Sambandið er sagt hafa sett um fjörutíu manns á svartan lista fyrir þátttöku í kosningasvikum og harkalegum aðgerðum gegn mótmælendum.

Tugir þúsunda fóru út á götur Minsk og annarra borga Hvíta-Rússlands í gær og kröfðust þess að Aleksander Lukasjenkó, forseti landsins, færi frá völdum. Mikil öryggisgæsla var í Minsk vegna mótmælanna og höfðu yfirvöld gripið til ýmissa ráðstafana til að reyna að draga úr þátttöku fólks í þeim.

Fjölmennt lið lögreglu var á götum úti í höfuðborginni og hermenn gráir fyrir járnum. Að minnsta kosti áttatíu mótmælendur voru handteknir í Minsk í gær og hátt í fimmtíu í mótmælum annars staðar í landinu. 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi