Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lokanir í tveimur leikskólum í Garðabæ vegna COVID-19

21.09.2020 - 07:31
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Leikskólinn Akrar í Garðabæ er lokaður næstu daga eftir að smit kom upp meðal starfsmanns leikskólans. Einnig er ein deild leikskólans Ása í Garðabæ lokað eftir að smit kom upp hjá starfsmanni þar.

Engin börn eða foreldrar barna sem dvalið hafa á leikskólunum þurfa að fara í sóttkví samkvæmt bréfi sem sent var á foreldra barna á Ökrum í gærkvöld, en allt starfsfólk leikskólans er í sóttkví. Í lok vikunnar verður starfsfólkið skimað og staðan endurmetin.

Á Ásum þarf að loka einni deild af fimm. Þar greindist einn starfsmaður og eru fjórir starfsmenn í sóttkví. Aðrar deildir eru opnar.

COVID-19 smit hafa greinst í þremur grunnskólum í Reykjavík og einum leikskóla. Allir nemendur í sjöunda bekk Vesturbæjarskóla fóru í sóttkví sem og sjö starfsmenn eftir að einn nemandi greindist með COVID-19. Tveir starfsmenn í Hvassaleitisskóla greindust með veikina og hafa allir nemendur í fjórða bekk verið settir í sóttkví. Einn starfsmaður Tjarnarskóla hefur greinst með smit og er verið að kanna hvaða áhrif það hafi á skólastarf.

Tvö COVID-19 smit tengjast einni deild á leikskólanum Ægisborg og hefur hún verið sett í sóttkví. Áður hafði verið greint frá smiti í Melaskóla. Ákveðið hefur verið að fresta samræmdum prófum í Melaskóla.