Lítil smithætta laðar kvikmyndagerðarmenn til landsins

Mynd: Paramount / RÚV

Lítil smithætta laðar kvikmyndagerðarmenn til landsins

21.09.2020 - 19:37

Höfundar

Erlendir kvikmyndagerðarmenn sækjast eftir því að koma til Íslands, meðal annars vegna þess að hér er tiltölulega öruggt að gera kvikmyndir í faraldrinum. Þetta segir fagstjóri hjá Íslandsstofu. Tvö stór verkefni eru í tökum, og hátt í tíu til viðbótar á teikniborðinu.

Á sama tíma og lítið er um að vera á mörgum sviðum atvinnulífsins á Íslandi virðist vera nóg að gera í kvikmyndagerð. Til marks um það má nefna að þessa dagana er töluvert um götulokanir í Reykjavík, vegna kvikmyndatöku. Götum í miðbænum hefur til dæmis verið lokað í vikunni vegna þriðju seríu af Ófærð sem nú er í tökum, og í næstu viku verður götum lokað í Vesturbænum. Þá þarf að loka Baldursgötu í næstu viku vegna kvikmyndarinnar Berdreymis. Samkvæmt upplýsingum frá Kvikmyndamiðstöð Íslands eru nú 12 leiknar íslenskar myndir í vinnslu, auk fjölda heimildarmynda, stuttmynda og sjónvarpsefnis. 

Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar, segir að það hafi gengið ótrúlega vel að vinna og taka upp kvikmyndir hér á landi, þrátt fyrir faraldurinn.

Áhuginn ekkert minnkað

Þá hefur áhugi erlendra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi ekki leynt sér.

„Það hafa verið að koma fyrirspurnir alveg frá því að COVID byrjaði, og auðvitað áður en COVID skall á. Það hefur yfirleitt verið nokkuð góður áhugi á Íslandi yfir höfuð. En hann hefur ekkert minnkað mikið eftir að COVID byrjaði,“ segir Einar Hansen Tómasson, fagstjóri hjá Íslandsstofu, sem hefur meðal annars það hlutverk að laða erlenda kvikmyndagerðarmenn hingað til lands.

Einar segir að um þessar mundir sé verið að taka tvær erlendar sjónvarpsseríur hér á landi.

„Önnur er búin að vera í gangi meira og minna frá því í júlí, svona þokkaleg pródúksjón, og hún verður væntanlega hér fram að jólum ef allt gengur upp. Svo er önnur í gangi, mjög stór myndi ég segja, hún verður í cirka tvo mánuði þannig að það eru sex vikur eftir af því,“ segir Einar. „Svo er RVK Studios að fara að vinna stórt verkefni fyrir erlent stúdíó, þar munu tökur hefjast í október og verða fram að áramótum.“

Breytist hratt

Þá segir Einar að tæknirisinn Sony hafi nýlega lokið við að taka upp auglýsingu á Íslandi, auk þess sem verið sé að taka svokallaðar bakgrunnsstökur fyrir bandaríska bíómynd.

„Það eru einhver 5 til 10 raunveruleg verkefni í skoðun fyrir næsta vor en svo kemur bara í ljós hvað verður. Þetta eru náttúrulega þannig tímar að maður veit ekkert hvað getur gerst. Hlutirnir breytast mjög hratt og menn eru að taka ákvarðanir með stuttum fyrirvara.“

Einar segir að nokkur atriði skýri áhuga kvikmyndagerðarmanna á Íslandi. Hér sé til dæmis frekar lítil smithætta.

„Hér er fámenni og hér hefur verið öruggt að vera,“ segir hann. „Það hafa verkefni verið í gangi og þau hafa gengið mjög vel. Og menn vita af því. Þetta er ekki það stór heimur í sjálfu sér, þannig að þetta spyrst bara út.“

Og menn eru að koma út af þessu öryggi?

„Já. Menn vita að hér er hægt að taka upp, og þeir geta ekki tekið upp annars staðar.“

Þá segir Einar að fleira hafi áhrif, svo sem gott aðgengi að fagfólki í kvikmyndagerð og góð aðstaða, fallegt landslag og endurgreiðsla á allt að fjórðungi framleiðslukostnaðar. Allt þetta skipti miklu máli því erlendir kvikmyndagerðarmenn hafi skilað 15 milljörðum inn í hagkerfið á árunum 2014 til 2018, svo dæmi sé tekið. Þá sýni rannsóknir að um þriðjungur ferðamanna komi hingað til lands vegna þess að þeir sáu landið í kvikmynd eða sjónvarpsþætti.

„Það er ansi stór hluti þeirra ferðamanna sem hingað koma og mjög jákvætt fyrir íslenskt efnahagslíf,“ segir Einar.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þýskt fyrirtæki kaupir fjórðungshlut í Sagafilm

Menningarefni

Ný íslensk kvikmynd frumsýnd í miðjum COVID-faraldri

Kvikmyndir

Hefur ekki undan við að svara framleiðendum