Hálfur álfur og Er ást verðlaunaðar á Skjaldborg

Mynd með færslu
 Mynd: Patrik Ontkovic - Skjaldborg

Hálfur álfur og Er ást verðlaunaðar á Skjaldborg

21.09.2020 - 15:22

Höfundar

Hálfur Álfur eftir Jón Bjarka Magnússon hlaut dómnefndarverðlaun og Er ást eftir Kristínu Andreu Þórðardóttur hlaut áhorfendaverðlaun á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg sem haldin var í Bíó Paradís um helgina.

Tvenn verðlaun eru veitt á Skjaldborg, áhorfendaverðlaunin Einarinnn og Ljóskastarinn, dómnefndarverðlaun. Af sóttvarnarástæðum afhenti dómnefnd bæði verðlaunin í ár. Þrettán heimildamyndir voru frumsýndar á hátíðinni, sjö verk í vinnslu voru kynnt auk dagskrár í tengslum við heiðursgest hátíðarinnar Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Þetta var jafnframt í fyrsta skipti sem Bíó Paradís opnar aftur eftir COVID-19 og þá óvissu sem upp var komin um framtíð rekstursins eftir að leigusamningur við húseiganda rann út.

Einarinn 2020 hlaut heimildamyndin Er ást eftir Kristínu Andreu Þórðardóttur sem er saga um sorgarferli Helenu Jónsdóttur eftir fráfall eiginmanns hennar Þorvaldar Þorsteinssonar. Í umsögn dómnefndar segir:  „Höfundur nálgast viðkvæmt viðfangsefni af mikilli næmni og tekst að gera úr áhrifamikið verk. Einlæg og hjartnæm mynd um ástina sem minnir mann á að lifa í augnablikinu og vera þakklátur fyrir hvert andartak.“

Heimildamyndin Hálfur Álfur eftir Jón Bjarka Magnússon hlaut Ljóskastarann en myndina gerði Jón Bjarki um afa sinn á hundraðasta aldursári. Jón Bjarki veitti Ljóskastaranum viðtöku ásamt framleiðanda myndarinnar, Hlín Ólafsdóttur. Að mati dómnefndar er myndin sterk og heilsteypt saga, einlæg og tilgerðarlaus frásögn. Mynd sem hrífur mann með sér frá fyrstu mínútu og fær mann til að hlæja og gráta á víxl.

Dómnefndin samanstóð af leikstjóranum Uglu Hauksdóttur, Veru Illugadóttur, útvarpskonu, og Grími Hákonarsyni leikstjóra. Skjaldborg í ár var ekki með hefðbundnu sniði en hátíðin er samkvæmt hefðinni haldin um hvítasunnu á Patreksfirði. Í ár var hátíðinni frestað fram á verslunarmannahelgi en með dags fyrirvara þurfti svo að blása hátíðina af sökum Covid-19 og fór hún loks fram núna um helgina í nýuppgerðu húsnæði Bíó Paradísar.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Bíó Paradís opnar og Skjaldborg fer suður

Kvikmyndir

Mynd Jóhanns Jóhannssonar Íslandsfrumsýnd á Skjaldborg

Kvikmyndir

Mynd um pólska íbúa á Íslandi hlýtur verðlaun

Kvikmyndir

Ekkert pláss fyrir snobb á Skjaldborg