Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Víðir kominn í sóttkví

20.09.2020 - 12:00
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, er kominn í sóttkví eftir að einstaklingur sem hann var í samskiptum við á fimmtudag greindist með COVID-19 í gær. Gætt var að samskiptafjarlægð en tíminn sem Víðir og viðkomandi voru á sama stað var það langur að hann þarf að fara í sóttkví í varúðarskyni.

„Ég fékk símhringingu frá smitrakningarteyminu í gærkvöldi um að einstaklingur sem ég var í samskiptum við á fimmtudaginn hafi greinst í gær,“ segir Víðir. „Tíminn sem ég dvaldi með þessum einstaklingi var það langur að hann sé innan þeirra marka að ég fari í sóttkví. Þarna var gætt samt allra almennra sóttvarnaráðstafana og fjarlægðin var meiri en tveir metrar á milli okkar allan tímann. Út frá mati sem smitrakningarteymið gerir í hvert skipti þá telst ég hafa verið innan þessara marka og er þar af leiðandi kominn í sóttkví.“

Víðir segir að það hafi verið áfall að þurfa að fara í sóttkví. „Það var það, sérstaklega í ljósi þess hversu varlega maður fer og passar sig sérstaklega vel í öllum samskiptum sem maður á við aðila utan sinnar þéttustu grúppu.“

Vísir greindi fyrst frá því að Víðir væri kominn í sóttkví.