Smit í þremur grunnskólum og einum leikskóla

Mynd:  / 
COVID-19 smit hafa greinst í þremur grunnskólum í Reykjavík og einum leikskóla. Allir nemendur í sjöunda bekk Vesturbæjarskóla fóru í sóttkví sem og sjö starfsmenn eftir að einn nemandi greindist með COVID-19. Tveir starfsmenn í Hvassaleitisskóla greindust með veikina og hafa allir nemendur í fjórða bekk verið settir í sóttkví. Einn starfsmaður Tjarnarskóla hefur greinst með smit og er verið að kanna hvaða áhrif það hafi á skólastarf.

Tvö COVID-19 smit tengjast einni deild á leikskólanum Ægisborg og hefur hún verið sett í sóttkví. Áður hafði verið greint frá smiti í Melaskóla. Ákveðið hefur verið að fresta samræmdum prófum í Melaskóla. Menntamálastofnun er með viðbragðsáætlun sem gerir ráð fyrir að þeir nemendur sem ekki geti tekið samræmd próf í næstu viku vegna COVID-19 taki þau 12. og 13. október.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að unnið sé að því á hverjum degi að reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu smits. „Ef það koma staðfestar upplýsingar um smit hjá nemanda eða starfsmanni reynum við að koma upplýsingum hratt og vel til starfsmanna og foreldra að viðkomandi barn eða börn og starfsmennirnir hegði sér eins og þeir séu komnir í sóttkví meðan verið er að vinna úr og rekja allt saman,“ segir Helgi. „Það er svona ákveðin úrvinnslusóttkví sem er fyrsta skrefið. Þegar er búið að rekja og komast að því hverjir eru innan marka og utan marka þá er sóttkví létt af einhverjum hópi meðan aðrir fara þá í lengri sóttkví þangað til í ljós kemur hvort að þeir hafi smitast eða ekki.“

Helgi Grímsson lagði áherslu á að allir gerðu það sem í þeirra valdi væri til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu.

Margrét Einarsdóttir, skólastjóri í Vesturbæjarskóla, segir að 57 nemendur og sjö starfsmenn hafi verið sendir í sóttkví fram á fimmtudag. Þar á meðal eru kennarar sem kenna í fleiri bekkjum og verður kennsla í yngri bekkjum tryggð með öðrum hætti.

Uppfærð 17:04 með upplýsingum um samræmd próf.

Leiðrétt 20:03 Margrét, skólastjóri Vesturbæjarskóla, var rangnefnd og hefur það verið leiðrétt.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi