Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Segir ekki tilefni til að ráðast í harðari aðgerðir

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
„Mér finnst ekki vera tilefni núna til að fara í harðari aðgerðir,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í viðtali á Sprengisandi í Bylgjunni í dag. Vegna þess hversu mikið greindum smitum gærdagsins fækkaði frá því í fyrradag sagðist hann myndu hinkra með að leggja til að takmarkanir yrðu hertar.

Þórólfur sagði að ef smitum færi að fjölga mikið aftur gæti þó þurft að grípa til harðari aðgerða. „Fyrirsjáanleiki aðgerða stýrist af fyrirsjáanleika veirunnar. Meðan veiran er ófyrirsjáanleg þá getum við ekki haft fyrirsjáanleika í aðgerðum,“ sagði hann.

Lagði áherslu á fjarvinnu, fjarkennslu og grímur

Hann hvetur fyrirtæki til að leggja áherslu á að gera fólki kleift að vinna heima. Þá sagði hann mikilvægt að framhalds- og háskólar legðu aukna áherslu á fjarkennslu og grímunotkun og að gestir í leikhúsum og á tónleikum bæru grímur. 

Hann benti á að vegna þess hversu öflug smitrakning er hér á landi hefðum við kost á að finna upptök smita og ráðast í markvissar aðgerðir í stað þess að skella öllu í lás. Ef markvissar aðgerðir nægðu ekki til að hefta útbreiðsluna væri alltaf möguleiki að ráðast í viðameiri aðgerðir. 

Þá nefndi hann að það sýndi hversu smitandi veiran væri að hún hefði breiðst milli fólks á Irishman Pub þar sem ekki var annað að sjá en að sóttvarnareglum hefði verið fylgt.