Lifa sig inn í líf og dauða Sunnefu

Mynd: Magnús Atli Magússon / RÚV/Landinn

Lifa sig inn í líf og dauða Sunnefu

20.09.2020 - 20:30

Höfundar

„Það er ekki annað hægt, þegar maður er hérna við þennan drekkingarhyl, en að finna sterkt fyrir sögunni,“ segir Tinna Sverrisdóttir sem leikur Sunnefu í samnefndu verki sem frumsýnt er í Sláturhúsinu á Egilsstöðum um helgina.

Landinn fór á söguslóðir í Fljótsdal með Tinnu og Margréti Kristínu Sigurðardóttur, sem leikur önnur hlutverk í verkinu og Þór Tuliniusi leikstjóra.

Sunnefa tvívegis dæmd til dauða fyrir blóðskömm

Maður sér fyrir sér þessa angist og þennan ótta og þessa hörku að vera steypt yfir þig poka og hann er reirður um mittið og þú getur ekki hreift þig og svo er þér kippt út í hylinn þar sem þú berst lokabaráttu fyrir lífi þínu. Án þess þó að hafa nokkurt vald til að berjast,“ segir Margrét. Sunnefa var tvívegis dæmd til dauða fyrir blóðskömm. Sextán ára eignaðist hún barn og játaði hún að bróðir hennar, 14 ára, væri faðirinn. Þau voru bæði dæmd til dauða á grundvelli Stóradóms.

Sýslumaður barnsfaðir Sunnefu

Á meðan þau voru í haldi á Skriðuklaustri og biðu aftöku þá eignaðist Sunnefa annað barn sem einnig var kennt bróðurnum. Sunnefa bar hinsvegar vitni um að Hans Wium, sýslumaður á Skriðuklaustri, væri faðirinn. Sunnefa beið aftöku í átján ár en ekki er vitað með vissu hvort henni var drekkt í Bessastaðaá eins og munnmælasögur herma eða hvort hún lést í haldi sýslumanns.

Frumsýnt á Egilsstöðum

Það er leikhópurinn Svipir sem setur upp söguna af Sunnefu en höfundur verksins er Árni Friðriksson framhaldsskólakennari á Egilsstöðum. Verkið verður fyrst sýnt í Sláturhúsinu á Egilsstöðum en síðar í Tjarnarbíói í Reykjavík.