Lærdómur COVID: Lifðu lífinu áður en röðin kemur að þér

Mynd: EPA / RÚV

Lærdómur COVID: Lifðu lífinu áður en röðin kemur að þér

20.09.2020 - 08:50

Höfundar

Halldór Armand veltir fyrir sér hvaða lærdóm megi draga af heimsfaraldrinum og telur hann helst hafa þvingað samfélagið til að horfast aftur í augun við feigðina. „Það eru allir alltaf í hættu, þannig er það bara, hinn ósýnilegi dauði er alltaf nærri.“

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

„Enginn getur dvalið til langframa í aldingarðinum Eden,“ segir Jacques, eldri milljónamæringur í París í skáldsögunni Giovanni’s Room, eða Herbergi Giovannis, eftir James Baldwin frá árinu 1956. Síðan bætir hann við: „Ég spyr sjálfan mig hvers vegna.“

Sögumaðurinn David, ungur, svartur bandarískur hommi sem hefur flúið kerfisbundið kynþáttahatur í heimalandinu sínu til Parísar segir svo að hann hafi hugsað um þessa spurningu allar götur síðan. „Spurningin er banal,“ segir David, „en eitt af því sem gerir lífið svo erfitt viðureignar er að það er banalt. Að lokum ganga allir eftir sama myrka veginum – og þessi vegur á það til að vera sem dimmastur einmitt þegar hann virðist einna bjartastur – og það er satt að enginn dvelur til langframa í aldingarðinum Eden.“

Stuttu síðar kemur Baldwin, með rödd Davids, með þessa mergjuðu hugsun. „Kannski eiga allir sinn eigin Edenslund. Ég veit það ekki; en þeir hafa varla fengið að sjá hann áður en þeir sjá logandi sverðið. Svo þess vegna býður lífið kannski aðeins upp á það að fólk muni eftir garðinum eða gleymi honum. Annað hvort, eða: það krefs styrks að muna, það krefst annars konar styrks að gleyma, það krefst hetju til að gera bæði. Fólk sem man missir vitið vegna sársaukans, þess sársauka sem felst í því að upplifa síendurtekið dauða sakleysins; fólk sem gleymir verður fyrir annars konar brjálæði, brjálæði þess sem felst í því að afneita sársaukanum og hata sakleysið; og heiminum er að mestu leyti skipt milli brjálæðinga sem muna, og brjálæðinga sem gleyma. Hetjur eru fágætar.“

Marlow um borð í EasyJet-vél

Fyrir einhvern eins og mig, sem er með endurminninguna á heilanum, glímuna við hana og það hversu stór hluti lífsins felst í því að rifja þetta sama líf upp, þá er svona tilvitnun eitthvað sem ærir mig gjörsamlega. Og ég varpa þessari spurningu til hlustenda Lestarinnar í dag: Hvort ert þú manneskja sem manst eða gleymir? Ertu ennþá alltaf að hugsa um andartakið þegar sakleysi þitt dó, kannski mörgum árum eða áratugum síðar. Eða hafnarðu sársaukanum, heldurðu áfram sama hvað, það fær ekkert að stoppa þig? Hvers konar brjálæðingur ertu? Eða ertu kannski ein af þessum fágætu hetjum, sem getur bæði munað og gleymt?

Ankannalegt sumar er að baki, kannski það ankannalegasta af þeim öllum, og ég hef spurt mig hvernig við munum minnast þessa alls. Veiran er eitt af einkennum þessarar aldar og ég býst við því að líklega mætti segja að við höfum öll „gengið eftir sama, myrka veginum“ eins og David heldur fram í Herbergi Giovannis, en samt man ég ekkert nema fullkomlega hversdagslega hluti frá þessu sumri veirunnar. „Ætli fólk hafi haldið upp á afmælið sitt í svarta dauða?“ spurði félagi minn mig um daginn. Akkúrat, hugsaði ég, ég meina, auðvitað, er það ekki? 

Í byrjun ágúst keypti ég ódýrasta flugmiða sem ég hef nokkurn tímann keypt frá Íslandi og fór í ferðalag. Ég strengdi svarta grímu yfir andlitið og sagði sjálfum mér að þessi ferð yrði söguleg, eitthvað sem ég myndi síðar rifja upp og segja frá. Ég var ungur maður með 3.400 króna flugmiða, á leiðinni til meginlands Evrópu í miðjum heimsfaraldri. Fyrr um sumarið hafði ég endurlesið Heart of Darkness eftir Joseph Conrad og sagði sjálfum mér að já, þetta væri eitthvað svipað, þetta væri 21. aldar Heart of Darkness eitthvað, þessi flugvél svifi nú inn í myrkrið, yfir sléttur dauðans, inn í land þagnarinnar, og að eins og Marlow, sögumaður bókarinnar, væri ég í leit að einhverju sem ég skildi ekki. Minn Kurz beið mín þarna einhvers staðar myrkrinu hinum megin við hafið.

Dührer í einrúmi

En ekkert af þessu var auðvitað rétt. Það kom á daginn að það var dásamlegt að ferðast í banvænum heimsfaraldri. Ekki aðeins var ferðalagið hér um bil ókeypis, heldur var allt annað líka snilld. Nóg pláss alls staðar. Niðurgreiddur matur á veitingastöðum. Fleiri starfsmenn en gestir á söfnum og í galleríum. Á einum tímapunkti stóð ég einn í heilum sal og virti fyrir mér risastór meistarastykki eftir da Vinci, Botticelli og Dührer eins og ég væri einn í eldhúsinu heima hjá mér. Sigri hrósandi hló ég kæfðum hlátri undir grímunni minni svo bergmálaði draugalega í salnum. Já, hlátur minn bergmálaði draugalega í sjálfri listasögunni. Þetta var ekkert Heart of Darkness-dæmi hérna, hér var enginn Kurz, enginn ó, hryllingurinn, hryllingurinn, heldur bara kurteist, snyrtilegt fólk sem bar stafræna hitamæla að enni mínu þegar það bauð mig velkominn. 

Já, hvað af þessu myndi ég muna? Þegar faraldurinn hræðilegi geisaði sat ég einn að listasögunni. Skildi einhver líka hafa hlegið svona, einn á safni í spænsku veikinni? Hélt fólk afmælisveislur í svarta dauða?

En vitaskuld getur enginn dvalið lengi í aldingarðinum Eden, eins og segir í sögunni, og skömmu síðar var ég hættur að velta því fyrir mér hvernig ég muni minnast veirunnar, kannski var það röng spurning, kannski átti frekar að spyrja: Hvað er það sem veiran minnir okkur á? Hvað er það sem veiran neyðir okkur til þess að horfast í augu við, en við viljum ekki sjá?

Og ég held að svarið sé dauðinn, eða öllu heldur dauðleikinn. „Ég sé mína eigin feigð kristallast út um allt í hversdagslífinu,“ sagði félagi minn við mig um daginn, sá sami og hafði velt fyrir sér hvernig afmæli fóru fram í svarta dauða, þar sem við sátum og drukkum kaffi í septembersólinni. „Ég hjóla í 20 mínútur í annan borgarhluta og ég dey að minnsta kosti þrisvar á leiðinni. Það sem meira er, svona hef ég alltaf verið, ég hef sætt mig við það að þetta mun aldrei breytast.“ Hann klykkti út með þessar tilvitnun í Gunnar Hámundarson. „Koma mun til mín feigðin, hvar sem ég er staddur, ef mér verður þess auðið.“ „Þetta er gott stöff!“ svaraði ég uppnuminn. „Geturðu sent mér þetta í skilaboðum?“

Memento mori

Alveg eins og söguhetja Baldwins telur að skipta megi heimsbyggðinni nokkurn veginn í fólk sem man og fólk sem gleymir, þá held ég stundum að eins megi draga línu milli fólks sem er mjög meðvitað um dauðleika sinn og það sem leiðir hugann aldrei að honum og forðast þá hugsun eftir fremsta megni. Ég hef að minnsta kosti nokkrum sinnum átt samtöl þar sem viðmælandi minn segir: Ég hugsa aldrei um dauðann og ég ætla aldrei að gera það. Og síðan þekki ég aðra, þar sem dauðleikinn, feigðin, er sjálf bensíngjöf tilverunnar. Þaðan kemur orkan, viljinn til þess að gera eitthvað, reyna að hafa gaman, það á rót sína í meðvitundinni um að einn daginn verður þetta búið og að það gæti gerst hvenær sem er.

En samfélagið hafnar dauðanum. Það reynir að ýta honum úr sjónmáli með öllum tiltækum leiðum. Memento mori er ekki beinlínis eitthvað sem nútímamaðurinn tileinkar sér. Hvers vegna ekki? Mig grunar, þótt ég átti mig á því að það sé frekar gróf og lítt fáguð skýring, að það tengist einna helst markaðsþjóðfélaginu. Feigð og dauðleiki passa mjög illa inn í þá heimsmynd sem markaðsþjóðfélagið grundvallast á. Kapítalismi er draumurinn um hina eilífu framtíð, hinn bjarta morgundag, þar sem allt verður betra en það var í gær, hvort sem það gerist gegnum rafbíl, nýjan iPhone, snyrtivörur, enska boltann og svo framvegis. Þetta er ástæða þess að kristni og kapítalismi passa svona líka frábærlega vel saman. En sú staðreynd að maður deyr einhvern tímann passar ekki þarna inn, það blasir við. Maður sem sér feigðina í hverju horni er ekki líklegur til þess að safna sér fyrir útborgun í nýja Teslu. Og þess vegna er dauðanum bolað í burtu og hugmyndin um eilíft líf seld án afláts. 

Getur verið að þetta sé hin holla og þarfa áminning veirunnar. Hún flutti dauðleikann og feigðina aftur inn í lífið. Hún skapaði þetta andrúmsloft að enginn sé óhultur, eða hún þvingaði okkur öllu heldur til þess að horfast í augu við þá staðreynd að það er aldrei neinn óhultur og hefur aldrei verið, það eru allir alltaf í hættu, þannig er það bara, hinn ósýnilegi dauði er alltaf nærri. Við getum reynt að gleyma því, okkur bjóðast hér um bil óteljandi leiðir til þess, og köllum þannig yfir okkur vitfirringu gleymskunnar. Eða við getum kosið að muna, sem vitaskuld lætur okkur líka missa vitið. Sama hvað gerist, þá tapa allir glórunni nema hetjurnar.

En hvað getum við lært af þessu? Alveg eins og David segir: „Spurningin er banal.“ Lífið er banalt og þess vegna eru þýðingarmestu svörin stundum banal. Og ég er meira banal en nokkru sinni fyrr og segi við sjálfan mig: Lifðu lífinu. Gerðu það sem þú vilt. Því þú veist aldrei hvenær röðin kemur að þér.

Tengdar fréttir

Pistlar

Í gini ljónsins – dómari á jaðri vestrænna mannréttinda

Pistlar

Hvort er lífið upplifun eða endurminning?

Pistlar

Við öðlumst visku gegn vilja okkar

Pistlar

Listin að reykja ósýnilega sígarettu