
Kyrrlátt kvöld í miðborg en unglingateiti í Kópavogi
Allir skemmtistaðir og krár, þar sem lögregla stakk við stafni voru með dyr sínar lokaðar. Harla fámennt var á veitingahúsum miðborgarinnar og sóttvarnarráðstafanir þar í lagi að sögn lögreglu. Líkt og í gær eru engin brot á reglum til rannsóknar eftir kvöldið.
Maður var gripinn á ferð í Hafnarfirði, próflaus og bifreiðin bar röng skráningarnúmer. Þau voru klppt af og maðurinn á yfir höfði sér ákæru fyrir skjalafals.
Bifreið var ekið á grindverk í Kópavogi og skilin þar eftir. Ökumaður og farþegi fundust skömmu síðar, reyndust báðir próflausir og auk þess grunaðir um ölvunarakstur. Lögregla kom þeim fyrir bak við lás og slá.
Tveir menn með grímur fyrir andlitum brutu öryggisgler í rúðu verslunar við Laugaveg í nótt. Þeim tókst ekki að komast inn en grímuklæddar ásjónur þeirra sáust vel á öryggismyndavélum.
Í nótt höfðu allt að tuttugu ungmenni safnast saman fyrir utan hús eitt í Kópavogi. Innan dyra voru enn fleiri því lögregla rak alls 62 ungmenni burt úr húsinu.
Veisluhaldarinn reyndist vera sextán ára unglingur en lögreglu tókst ekki að ná í föður hans. Þá var málið tilkynnt barnavernd en ættingi tók að sér unglinginn.