Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Fylgið reglum, annars verða þær hertar“

epa08672489 Britain's Health Secretary Matt Hancock leaves 10 Downing street to attend Prime Ministers Questions in London, Britain, 16 September 2020. Infections case in coronavirus are rising putting pressure on the governments testing system in the UK.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Matt Hancock, heilbrigðisráðherra Bretlands, segir að takmarkanir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins verði hertar ef þeim verður ekki fylgt. Víða í Bretlandi tóku nýlega gildi reglur um að aðeins 6 manns mættu koma saman og sektir vegna brota á sóttvarnareglum voru hækkaðar til muna. Smitum hefur fjölgað hratt í Bretlandi á síðustu vikum.

Í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu í gær sagðist Hancock ekki geta útilokað strangt útgöngubann en Boris Johnson forsætisráðherra er sagður íhuga strangar takmarkanir með tveggja vikna útgöngubanni. Hancock sagði í gær að ef allir fylgdu reglum mætti þó koma í veg fyrir útgöngubann.

Hann ráðlagði fólki að hafa samband við lögreglu ef það yrði uppvíst að brotum á sóttvarnareglum. Ummælin eru á skjön við ummæli forsætisráðherra fyrr í vikunni um að ef fólk yrði vitni að brotum ætti það frekar að benda fólki á reglurnar heldur en að hringja í lögregluna. 

Þeir sem brjóta reglur um einangrun í Bretlandi eru sektaðir um allt að 10.000 pund sem jafngildir næstum 1,8 milljónum íslenskra króna. Fleiri en 19.000 hafa verið sektaðir í Englandi og í Wales fyrir brot á sóttvarnareglum. Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, hefur lýst stuðningi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um hækkaðar sektir vegna brota á sóttvarnareglum.