
„Fylgið reglum, annars verða þær hertar“
Í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu í gær sagðist Hancock ekki geta útilokað strangt útgöngubann en Boris Johnson forsætisráðherra er sagður íhuga strangar takmarkanir með tveggja vikna útgöngubanni. Hancock sagði í gær að ef allir fylgdu reglum mætti þó koma í veg fyrir útgöngubann.
Hann ráðlagði fólki að hafa samband við lögreglu ef það yrði uppvíst að brotum á sóttvarnareglum. Ummælin eru á skjön við ummæli forsætisráðherra fyrr í vikunni um að ef fólk yrði vitni að brotum ætti það frekar að benda fólki á reglurnar heldur en að hringja í lögregluna.
Þeir sem brjóta reglur um einangrun í Bretlandi eru sektaðir um allt að 10.000 pund sem jafngildir næstum 1,8 milljónum íslenskra króna. Fleiri en 19.000 hafa verið sektaðir í Englandi og í Wales fyrir brot á sóttvarnareglum. Keir Starmer, formaður Verkamannaflokksins, hefur lýst stuðningi við ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um hækkaðar sektir vegna brota á sóttvarnareglum.