Þeir komu með leikgleði í myndlistina

Mynd: RÚV / RÚV

Þeir komu með leikgleði í myndlistina

19.09.2020 - 10:00

Höfundar

„Í bresku samhengi virka Gilbert & George dálítið eins og Megas gerir hér. Þeir rifja upp svona gömul minni en eru samt að opna augu fólks fyrir tvöfeldni borgaralegs siðgæðis með rakvélablöðum,“ segir Ragnar Kjartansson myndlistarmaður um breska myndlistardúóið Gilbert & George en sýning með verkum þeirra er nú uppi í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur.

Þeir heita Gilbert Prousch (fæddur 17. september 1943 í smábænum St. Martin de Tor á Norður Ítalíu) og George Passmore (fæddur 8. janúar 1942 í Plymoth á Englandi). Myndlistarheimurinn þekkir þá sem Gilbert og George og innan hans eru þeir súperstjörnur, eiginlega hálfgerðir aðalsmenn, en samt ekki. 

Þeir hittust 25. september 1967 í Saint Martin’s listaskólanum í London, kannski vegna þess að George var sá eini sem nennti að reyna að skilja lélegu enskuna hans Gilberts. Allar götur síðan hafa talað um ást við fyrstu sýn þó ekki hafi þeir gift sig fyrr en 2008. Fyrir þeirri bið voru gildar ástæður vegna þess að samkynhneigð var fyrst afglæpavædd í Bretlandi árið sem þeir kynntust. Þeir búa í 18. aldar húsi við Fournier stræti í Spitalfields hverfinu í London og eru meðal þekktustu myndlistarmanna heims.

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett RUV - Samsett
Eirún Sigurðardóttir, Ragnar Kjartansson og Ilmur Stefánsdóttir ræddu Gilbert og George.

Víðsjá helgaði Gilbert og George þátt í vikunni, sem má heyra í heild sinni hér að neðan en þar var rætt við nokkra íslenska myndlistarmenn, þau Ilmi Stefánsdóttur, Ragnar Kjartansson og Eirúnu Sigurðardóttur úr myndlistardúóinu Gjörningaklúbbnum. Þau höfðu meðal annars þetta að segja um Gilbert og George: 

„Þeir hegða sér eins og yfirstéttarmennirnir sem þeir eru alls ekki. Þeir eru bara af lágstétt og áttu ekki bót fyrir boruna á sér þegar þeir byrjuðu og áttu ekki einu sinni mikinn séns í myndlistarheiminum. Þeir skapa ímynd og maður veit ekki alveg hvar ímyndin byrjar og hvar þeir sjálfir enda. Jú, þeir eru íhaldssamir en þeir eru að leika leikrit. Hversu hreinræktaðir þeir eru í sínum „royalisma“ veit maður ekki.“

- Ilmur Stefánsdóttir

„Mér finnst mjög mikill fengur af þessari sýningu í Listasafni Reykjavíkur og gaman að sjá svona mörg verk saman og sjá þróunina. Mér finnst elstu verkin mjög falleg. Þar eru þeir ungir og leitandandi og að finna sig. Svo tengi ég kannski minna við myndir sem snúast til dæmis um kúk og svona, en það er samt allt í lagi því að það er andstaðan við það hvað þeir eru „civiliseraðir“.“

- Eirún Sigurðardóttir úr Gjörningaklúbbnum.

„Maður hreyfst svo mikið af þessu frelsi sem þeir bjuggu sér til. Eins og þegar þeir koma fram í upphafi sem „The Singing Sculpture“ þá má segja að ég hafi eiginlega verið að vinna með þá hugmynd síðan á mínum 20 ára ferli. Það gleymist smá, þegar við tölum um hvað þetta séu krúttlegir kallar í klæðskerasaumuðum jakkafötum, að það eru algjör straumhvörf í listasögunni í kringum þá.“

- Ragnar Kjartansson.

Hér fyrir neðan er Víðsjárþátturinn um Gilbert og George í heild sinni:

Mynd: Gilbert og George / Listasafn Re / Listasafn Reykjavíkur