Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smit í Melaskóla – Margir missa af samræmdum prófum

19.09.2020 - 14:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Steinsteypuöldin
Nemandi í 7. bekk í Melaskóla í Reykjavík greindist með COVID-19 í gær og allir í hans bekk, auk nokkurra úr öðrum bekkjum og nokkurra kennara, hafa verið sendir í sóttkví. Nemendurnir geta ekki tekið hefðbundin samræmd próf sem fara fram á fimmtudag og föstudag. Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, segir að nú þurfi að skoða með Menntamálastofnun með hvaða hætti verður hægt að gefa nemendum kost á að taka samræmd próf.

Í bréfi sem Björgvin Þór Þórhallsson, skólastjóri Melaskóla, sendi til allra foreldra nemenda í 7. bekk segir að sóttkvíin vari til 24. september og að sýnataka fari fram næsta fimmtudag. Niðurstaðna úr henni sé ekki að vænta fyrr en á föstudagsmorgun, að loknu samræmda prófinu sem haldið er þann morgun. Því fari þeir sem sæta sóttkví ekki í hefðbundin samræmd próf. Nú sé unnið að því að leita leiða til að gefa nemendum kost á því að taka samræmdu prófin með einhverjum hætti. 

Helgi Grímsson segir í samtali við fréttastofu að hann telji mikilvægt að nemendur fái að taka samræmdu prófin til að gefa þeim kost á að átta sig á því hvar þeir standa í náminu. Hugsanlega verði annað hvort hægt að bjóða nemendum upp á að taka prófin heima eða að taka þau seinna. Þá þurfi þó að hafa í huga að ef prófin verði tekin heima verði þau ekki endilega samanburðarhæf, vegna þess að ekki verði hægt að fylgjast með framkvæmdinni.

„En við verðum alltaf að líta þannig á að próf í svona aðstæðum hafa fyrst og fremst gildi fyrir nemendur til að vita hvar þeir standa,“ segir hann. „Þetta kom bara upp í morgun og við eigum eftir að skoða þetta með Menntamálastofnun,“ bætir hann við.