Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ruth Bader Ginsburg hæstaréttardómari látin

epa08546493 (FILE) - United States Supreme Court Justice Ruth Bader Ginsburg attends an event at New York Law School in New York, New York, USA, 06 February 2018 (Reissued 14 July 2020). According to reports, Justice Ruth Bader Ginsburg was hospitalized for possible infection on 14 July 2020.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ruth Ginsburg dómari við Hæstarétt Bandaríkjanna er látin, 87 ára að aldri. Banamein hennar var krabbamein. Bill Clinton Bandaríkjaforseti skipaði hana í embætti árið 1993.

Ginsburg var önnur kvenna í sögunni til að gegna embætti hæstaréttardómara vestra. Hún taldist  einn frjálslyndasti dómarinn við Hæstarétt Bandaríkjanna og hafði viðurnefnið „Notorious RBG“.  

Ruth Ginsburg var iðulega á öndverðum meiði við dómara við réttinn þegar kom að mannréttindamálum af ýmsu tagi. Hún sagði eitt sinn í viðtali á NPR að sérálit hennar í þess háttar málum væru hugsuð til framtíðar. Þótt hún myndi ef til vill ekki lifa að sjá hvaða áhrif lögfræðilegt álit hennar hefði kvaðst hún vongóð um að það yrði til góðs. 

Við fráfall Ginsburg gefst Donald Trump Bandaríkjaforseta tækifæri til að skipa dómara við réttinn. Þeir tveir sem hann hefur valið á embættistíð sinni teljast íhaldssamir.

Verði það raunin með þann þriðja teljast sex dómarar við réttinn íhaldssamir og þrír frjálslyndir. Búist er við að forsetinn muni bregðast skjótt við, enda eitt af kosningaloforðum hans að þétta raðir íhaldssinnaðra dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna.

Stjórnmálaskýrendur segja val Trumps á dómara nú geta haft áhrif á niðurstöður dómsins í málefnum á borð við réttindi hinsegin fólks, dauðarefsingar og trúfrelsi. 

Nokkrum dögum fyrir andlát sitt lýsti Ginsburg því yfir að heitasta ósk hennar væri að eftirmaður hennar yrði ekki tilnefndur fyrr en nýr forseti hefði sest að völdum í Washington. 

Hún var alla tíð harður andstæðingur Trumps og sagðist ekki vilja hugsa þá hugsun til enda hvaða áhrif hann gæti haft á Hæstarétt Bandaríkjanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.