Ósammála um innihald samnings

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ósammála um innihald samnings

19.09.2020 - 12:56

Höfundar

Menntamálaráðuneytið og Kvikmyndaskóli Íslands eru ósammála um hvort að samningur þeirra á milli kveði á um að skólinn verði með nám á háskólastigi. Til stendur að kynna kvikmyndastefnu til næsta áratugar í þessum mánuði.

Menntamálaráðuneytið og Kvikmyndaskóli Íslands gerðu með sér samning sem tók gildi í byrjun þessa árs og gildir til ársloka 2024.

Í stuttri greinargerð skólans til ráðuneytisins frá í vor er meðal annars fjallað um starfsmannamál og  ráðningu akademísks starfsfólks vegna  yfirfærslu á háskólastig. Í svari ráðuneytisins til skólans segir að ráðuneytið líti svo á að fyrirhuguð starfsemi Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastigi sé ekki hluti af samningi þeirra á milli. Síðar í greinargerð skólans segir að í stefnu skólans, eins og hún sé staðfest í umræddum samningi, sé að skólinn stefni á BA gráðu í kvikmyndagerð. Og vonir séu bundnar við að ráðherra samþykki  umsóknarferli skólans og að BA nám verði í samvinnu við Háskóla Íslands.  Enn og aftur svarar ráðuneytið því að fyrirhuguð háskólakennsla skólans sé ekki hluti af samningnum.

Kvikmyndaskólinn vísar til greinar í samningnum við ráðuneytið þar sem segir að skólinn stefni að því að námslok við hann veiti nemendum rétt til að fá nám sitt metið í háskóla sem bjóði upp á viðbótarnám til BA gráðu.

Í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að ekki hafi verið boðað til formlegs fundar með skólanum til að fara yfir þessi mál og fleiri, en það verði gert á næstunni. Sem kunnugt er hefur Listaháskóli Íslands lýst yfir vilja til að bjóða upp á kvikmyndanám. Í svari ráðuneytisins til fréttastofu segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um kvikmyndanám á háskólastigi. Kvikmyndastefna til ársins 2030, þar sem meðal annars er fjallað um menntun í kvikmyndagerð á öllum skólastigum, verði kynnt síðar í þessum mánuði. 

Stjórn og rektor Kvikmyndaskóla Íslands vilja koma eftirfarandi á framfæri:

Ekki er neinn ágreiningur milli Kvikmyndaskóla Íslands og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Skólinn sendi inn umsókn um háskólaviðurkenningu þann 24. janúar síðastliðinn og hefur allt þetta ár unnið undirbúningi að yfirfærslu á háskólastig. Vinnan hefur verið góðu samstarfi við embættismenn ráðuneytis og Gæðaráð háskóla. Undirbúningur er á lokastigi og næstu þrjár vikurnar mun mikilvægum þáttum lokið.

Skólinn mun strax verða tilbúinn til að taka á móti þriggja manna sérfræðingahópi til að veita umsögn um skólann til ráðherra, áður en viðurkenning er veitt. Vonir skólans standa til þess að þessu verði lokið 1. des. Þá yrði í janúar unnt að opna nýja námsleið til BA gráðu í kvikmyndagerð og leiklist í samvinnu við Háskóla Íslands sem bjóða upp á þriðja árið.

Ástæða er til að nefna að með yfirfærslu Kvikmyndaskóla Íslands á háskólastig þá opnast loks námsleið í skapandi greinum fyrir fjölmargar framhaldsskóladeildir. Víða eru kvikmyndabrautir, leiklistarbrautir og listabrautir. Nefna má skóla eins og Borgarholtsskóla, Fjölbraut í Garðabæ, Fjölbraut í Ármúla, Fjölbraut Norðurlands vestra, Menntaskólann á Ísafirði, Lauga í Þingeyjarsýslu o.fl.

Fréttin var uppfærð kl. 18:15 með yfirlýsingu Kvikmyndaskóla Íslands.