Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Nemendur í sóttkví taka samræmd próf síðar

19.09.2020 - 18:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Grunnskólanemendum sem eru í sóttkví og geta því ekki tekið samræmd próf í næstu viku verður boðið að taka prófin síðar. Þetta segir Sverrir Óskarsson, sviðsstjóri matssviðs hjá Menntamálastofnun, í samtali við fréttastofu.

Nemandi í 7. bekk í Melaskóla greindist með COVID-19 í gær og greint var frá því fyrr í dag að fjöldi nemenda í 7. bekk við skólann væri nú í sóttkví. Nemendurnir gætu því ekki tekið samræmd próf á tilskildum tíma.

Sverrir segir að Menntamálastofnun hafi gefið út viðbragðsáætlun vegna forfalla í prófin sökum faraldursins og að stefnt sé að því að þeir nemendur í sjöunda bekk sem ekki taki prófin í næstu viku taki þau 12. og 13. október. Það sama eigi við um nemendur í öðrum skólum í svipaðri stöðu. Ef dagsetningarnar henti ekki verði fundnar nýjar dagsetningar í samráði við skólana. 

„Nemendur eiga rétt á þessu og við ætlum að vera sveigjanleg. Við ætlum að hugsa um nemendurna, þetta er krefjandi tími fyrir þá,“ segir Sverrir.