Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gærkvöldið „til fyrirmyndar“ í miðbænum

Mynd: RÚV / RÚV
Rólegt var um að litast í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi en lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði eftirlit með lokun skemmtistaða og kráa, og með sóttvörnum á samkomustöðum. Fréttastofa slóst í för með Stefáni, varðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í eftirlitsferð um miðbæ Reykjavíkur.

Allt með kyrrum kjörum í gærkvöldi

Í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra að eigendum skemmtistaða og kráa væri skylt að hafa staðina lokaða frá og með gærdeginum og fram á mánudag í því skyni að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni leiddu eftirlitsferðir gærkvöldsins ekki í ljós nein brot á reglum um lokun skemmtistaða og kráa og sóttvarnareglur voru virtar í hvívetna á veitingastöðum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður slóst í för með Stefáni, varðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í eftirlitsferð í gærkvöldi. Hann sagði að kvöldið hefði verið rólegt og til fyrirmyndar. Lögreglan myndi áfram hafa eftirlit um helgina í samráði við veitingastaði. Hann sagði helstu áskorunina við eftirlitsferðir vera að vinna í samstarfi við staðina og að „hafa þetta í góðu“. Þá óttaðist hann ekki sérstaklega að fólk myndi hópast saman í miðbænum um helgina.

Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Af hverju var sumum stöðum lokað og öðrum ekki?

Eftir að reglugerðin um lokun skemmtistaða og kráa var kynnt í gær voru ekki allir á eitt sáttir yfir því að skemmtistöðum yrði lokað á meðan veitingastaðir með vínveitingaleyfi yrðu opnir. 

Í reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eru veitingastaðir flokkaðir eins og sjá má hér að neðan. Samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra er eigendum veitingastaða í flokki b) og f) skylt að hafa lokað fram á mánudag en starfsemi verður haldið áfram á stöðum í öðrum flokkum.

Tegundir veitingastaða.

Veitingastaðir skiptast í eftirtaldar tegundir eftir starfsemi og þjónustu sem bjóða skal viðskipta­vinum. Hver einstök tegund veitingastaða getur fallið undir fleiri en einn framangreindan flokk veit­inga­staða, í samræmi við þá starfsemi sem rekstrarleyfi viðkomandi staðar hljóðar um.

a) Veitingahús: Veitingastaður með fjölbreyttar veitingar í mat og drykk og fulla þjónustu. Í veitingahúsi skal vera starfandi maður með fullnægjandi þekkingu í framreiðslu.

b) Skemmtistaður: Veitingastaður með reglubundna skemmtistarfsemi og fjölbreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Hér undir falla einnig staðir þar sem aðaláhersla er lögð á áfengis­veitingar, dans gesta, tónlist og langan afgreiðslutíma en engar eða takmarkaðar veitingar í mat.

c) Veitingastofa og greiðasala: Veitingastaðir með fábreyttar veitingar í mat og/eða drykk. Á slíkum stöðum er takmarkaðri þjónusta og/eða gestir afgreiða sig sjálfir að hluta eða öllu leyti. Hér undir falla t.d. skyndibitastaðir og einnig söluskálar með aðstöðu til neyslu veit­inga.

d) Veisluþjónusta og veitingaverslun: Staðir þar sem fram fer sala veitinga sem ekki er til neyslu á staðnum enda er slík sala meginstarfsemi staðarins.

e) Kaffihús: Veitingastaður með einfaldar veitingar í mat og/eða drykk þar sem aðaláhersla er lögð á kaffiveitingar. Hér undir falla t.d. bakarí sem hafa aðstöðu til neyslu veitinga á staðnum.

f) Krá: Veitingastaður með takmarkaða þjónustu og einfaldar eða engar veitingar í mat, þar sem aðaláhersla er lögð á áfengisveitingar og langan afgreiðslutíma.

g) Samkomusalir: Staðir sem eru sérstaklega útbúnir og ætlaðir til hvers kyns samkomuhalds og til þess leigðir út í atvinnuskyni til einstaklinga og/eða fyrirtækja, hvort sem er með eða án veitinga í mat og/eða drykk. Félagsheimili, íþróttasalir, flugskýli, vöruskemmur og önnur húsakynni sem að jafnaði eru ekki ætluð til samkomuhalds í atvinnuskyni geta fallið hér undir ef útleiga til skemmtanahalds fer oftar fram en tólf sinnum á ári.