Starfsemi Landspítalans ekki færð upp á hættustig

18.09.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Tveir liggja nú á Landspítala með COVID-19. Á fundi viðbragðsnefndar spítalans í morgun var ákveðið að starfsemi spítalans yrði ekki færð upp á hættustig. Spítalinn var á hættustigi í sumar, þegar færri smit voru en greinst hafa núna undanfarna daga.

Spítalinn var á hættustigi frá þrítugasta 30. júlí til 1. fyrsta september en hefur verið á óvissustigi síðan þá. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítala, segir að staðan sé í stöðugri endurskoðun og viðbragðsnefnd spítalans fundi daglega, síðast í morgun og þar var ákveðið að ekki væri ástæða til að breyta viðbúnaðarstiginu.

„Við metum hvaða möguleika við höfum til að sinna okkar reglulegu starfsemi á hverjum tíma. Í sumar horfði þetta öðruvísi við þegar starfsemin er í lágmarki og við höfum mikið af afleysingafólki og svo framvegis. Núna hinsvegar er starfsemin í fullum gangi, öll rúm opin þannig að við teljum okkur ekki þurfa að færa okkur upp á hættustig nema við teljum einhverja ógn við starfsemina. Og svo er ekki nú að okkar mati,“ segir Anna Sigrún. 

Hún segir að ekki sé tilgreindur hámarksfjöldi sjúklinga með COVID-19 til að viðbúnaðarstig Landspítala færist upp á hættustig. 

„Þetta snýr að því hvort það er eitthvað annað sem kann að hafa áhrif á starfsemina eða COVID hafi með einhverjum hætti áhrif. Það kann að vera vegna fjölda innlagna, það kann að vera vegna einhvers annars líka. þannig að viðmiðið er að meta stöðuna á hverjum tíma og með í huga alla starfsemina,“ segir Anna Sigrún. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi