Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Smit á Akranesi - allir í sóttkví sem fóru í ræktina

18.09.2020 - 14:16
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Kórónuveirusmit greindist á Akranesi. Búið er að rekja ferðir einstaklings sem reyndist smitaður, í það minnsta að hluta, en hann fór meðal annars í líkamsræktarsal á Jaðarsbökkum á þriðjudaginn.

Í tilkynningu á vef bæjarins stendur að samkvæmt fyrirmælum smitrakningateymis Almannavarna þurfi allir sem sóttu líkamsræktarstöðina þennan dag, þriðjudaginn 15. september, að fara í sóttkví.

Fólk getur losnað úr sóttkví eftir viku ef sýnataka að loknum sjö dögum reynist neikvæð. Reynt er að halda sérstaklega utan um þá sem þurfa að fara í sóttkví og eru þeir sem fóru í ræktina þennan dag beðnir um að tilkynna það, en nánari upplýsingar má finna hér á vef bæjarins.

Þar er áréttað að mikilvægt sé að bregðast við þessu sem fyrst til þess að lágmarka hættuna á frekari útbreiðslu.