
Mikil eftirspurn var eftir hlutabréfum Icelandair
Stjórn Icelandair samþykkti áskriftir úr útboðinu að ríflega 30 milljörðum króna og hefur ákveðið að nýta heimild til stækkunar útboðsins. Fjöldi seldra hluta verða því 23 milljarðar talsins og heildarhlutafé verður 28,4 milljarðar hluta eftir útboðið. Hlutafé Icelandair nam 5,4 milljörðum fyrir það.
Í yfirlýsingu segir að úthlutun hafi verið í samræmi við skilmála útboðsins. Núverandi hluthafar sem tóku þátt í útboðinu hafi fengið fulla úthlutun í samræmi við hlutafjáreign þeirra.
Áskriftir að jafnvirði 1 milljón kr. eða lægri verði ekki skertar, en hlutfallsleg skerðing annarra áskrifta í báðum tilboðsbókum sé um 37%.
Almennir fjárfestar munu eignast um helming í Icelandair eftir úboðið og fjöldi hluthafa verður um 11 þúsund, um 1.000 starfsmenn keyptu hlut í félaginu. Hlutafé verður afhent í síðasta lagi 9. október næstkomandi eða þegar hlutafjáraukning hefur verið skráð hjá Fyrirtækjaskrá.
Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group segist í yfirlýsingu auðmjúkur og þakklátur fyrir þann mikla áhuga sem félaginu var sýndur. Hann þakkar og hrósar starfsfólki félagsins, segir nýjan kafla í sögu þess að hefjast og kveður Icelandair tilbúið að bregðast hratt við þegar eftirspurn eftir flugi tekur við sér að nýju.