Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Mátt drekka á veitingastað en ekki á pöbb“

18.09.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: picjumbo.com - CC0
Veitingahúsaeigandi í Reykjavík telur ólíklegt að hertar sóttvarnaaðgerðir sem felast í tímabundinni lokin skemmtistaða og kráa á höfuðborgarsvæðinu hafi áhrif á útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Arnar Gíslason rekur sjö skemmtistaði og veitingastaði í Reykjavík, meðal annars The Irishman Pub við Klapparstíg þar sem talið er að fjöldi fólks hafi orðið útsettur fyrir smiti síðastliðið föstudagskvöld. Hann gagnrýnir ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem tekin var í morgun eftir tillögu sóttvarnalæknis um tímabundna lokun staðanna á tímabilinu 18.-21. september.

„Allir veitingastaðir eru opnir og fólk má greinilega fara út að borða, drekka vín og hafa gaman þar. En þú mátt ekki fara og fá þér einn bjór á pöbb. Mér finnst mjög hart að okkur vegið að veitingastaðir megi vera opnir, en ekki barir og krár,“ segir Arnar.

Hann segist vonast til að þetta lokunartímabil verði ekki framlengt. „Ég vona að þeir opni sem fyrst og leyfi okkur að reka reksturinn okkar áfram svo við getum haldið áfram að borga laun og leigu.“