
Landlæknir óskar gagna um skimun konu
„Við erum að endurskoða sýni sem voru tekin frá júní 2017 þangað til í janúar 2020,“ segir Ágúst Ingi.
Er eitthvað sem gefur tilefni til að endurskoða sýni sem voru tekin fyrr?
„Við teljum að það þurfi ekki vegna þess að þá erum við komin aftur fyrir síðustu skimunarlotu - það þýðir það að konur sem komu í skimun fyrir júní 2017 þær ættu að vera að koma í skimun núna hvort sem er.“
Í um þremur prósentum þeirra sýna sem hafa verið endurskoðuð hafa greinst frumubreytingar eða vísbendingar um þær. Þá eru konur kallaðar aftur í skimun og fá flýtimeðferð. Ágúst segir að sumum konum sé brugðið þegar þær eru boðaðar í skimun. „Skiljanlega verða sumar konur áhyggjufullar, flestar konur taka þessu með jafnaðargeði. En auðvitað geri ég ekki ráð fyrir að það sé þægilegt fyrir neinn að fá svona símtal.“
Embætti landlæknis óskaði í dag eftir gögnum frá Leitarstöðinni um greiningu á leghálssýni konu. „Landlæknir fer fram á er að við afhendum hugsanleg gögn sem við eigum varðandi viðkomandi einstakling og að við skilum greinargerð. Ég get því miður ekki tjáð mig meira um það tilfelli.“
Ágúst segir að ekki sé hægt að gera þá kröfu að skimanir séu óskeikular. „Því hefur verið haldið fram að skimun fyrir leghálskrabbameini fækki tilvikum um 90% en ekki 100% og það er hvergi í heiminum hægt að gera þær kröfur.“