Bíó Paradís opnar og Skjaldborg fer suður

Mynd: RÚV / RÚV

Bíó Paradís opnar og Skjaldborg fer suður

18.09.2020 - 10:34

Höfundar

Bíó Paradís lýkur upp dyrum sínum á nýjan leik eftir 5 mánaða lokun. Setning heimildamyndahátíðarinnar Skjaldborgar markar nýtt starfsár hjá kvikmyndahúsinu, en hún fer vanalega fram á Patreksfirði. 

Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradísar segir að rekstur hafi áfram verið tryggður með samkomulagi milli allra aðila sem komu að borðinu. „Það var ekki bara fólk þarna úti sem áttaði sig á því hversu mikilvægt það starf er sem við höfum unnið hér í 10 ár er heldur er þetta líka örugglega sjálfbærasta menningarhús landsins, við höfum rekið okkur að langmestu leyti sjálf, við erum 80% rekin á sjálfsaflafé svo í rauninni erum við ekkert að tala um stórar upphæðir, það þurftu bara allir að vera sammála,“ segir hún. „Þetta er sameiginlegt verkefni ríkis og borgarinnar, það þurftu allir að vera sammála um að við berum öll saman ábyrgð á þessu, við þurftum að ná samkomulagi við leigusalana og það voru allir sammála um eitt: jú við viljum þetta og þetta er mikilvægt og svo þurfti bara að finna út hvernig við gerum þetta saman.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bíó Paradís hefur fengið laglega yfirhalningu.

Að hennar sögn var markmiðið að ná að opna í haust og gleðiefni að það takist. Síðsumri var varið í framkvæmdir – sæti bólstruð, loftræsting löguð, rafmagn endurlagt auk þess sem keypt var ný sýningarvél og tjöld. Auk þess fær anddyrið yfirhalningu. 

Skjaldborg: taka 3

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg verður opnunarhátíð kvikmyndahússins. Að sögn Körnu Sigurðardóttur varð að fresta hátíðinni í tvígang vegna Covid faraldursins, en hún er ávallt haldin í Skjald­borg­ar­bíói á Pat­reks­firði. Aldrei kom þó til greina að gefast upp. „Það er dálítið erfitt að henda okkur Skjaldborgarteyminu af baki, við hugsuðum alveg um að setja hátíðina á netið eins og margar hátíðir hafa gert en það var einhvern veginn ekki í anda Skjaldborgar. Hátíðin snýst svo mikið um samtalið og samveruna, þetta er spurning um að koma heimildamyndasamfélaginu á Íslandi saman, bæði leikmönnum og fagfólki. Þess vegna var ekki möguleiki fyrir okkur að fella hana niður en það hefur þýtt nokkrar atrennur, þetta er taka 3 núna, og við ætlum að keyra hátíðina í Bíó Paradís og hún byrjar á morgun,“ segir Karna. 

Endalok upphafsins

Hún hvetur fólk til að sjá sem stærstan hluta dagskrárinnar og vinna úr henni í samtali við vini og kolelga. „Þetta snýst svolítið um að koma og sjá eins margar myndir og maður getur og tala saman á milli, bera saman bækur sínar og þess háttar.“ Hátíðin hefst með heim­ild­ar­mynd um heima­fæðing­ar á Íslandi, Aft­ur heim? og lýk­ur með mynd Jó­hanns Jó­hanns­son­ar heit­ins, Enda­lok upp­hafs­ins eða Last and First Men. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Að sögn Körnu mun hátíðin snúa aftur til síns heima að ári. „Skjaldborg á heima á Patreksfirði, það er alveg ljóst. Það var ekki auðveld ákvörðun að flytja hana frá Patreksfirði, það var bara sökum aðstæðna í ár að þá var ekkert annað í stöðunni. Þá var auðvitað mjög ánægjulegt að ganga í þetta hjónaband með Bíó Paradís, því Bíó Paradís hefur stuðlað mjög að framgangi heimildamynda á Íslandi og við lítum bara á þetta sem tækifæri, það þýðir ekkert annað. Við vonumst til að þeir sem hafa til dæmis aldrei haft tækifæri til að fara vestur skelli sér á Skjaldborg í ár og nýti tækifærið þegar hún er hér í borginni. Svo fáum við bara fullt af nýju og skemmtilegu fólki með okkur vestur á næsta ári.“

Spennt að byrja

Ýmislegt annað er á dagskrá Bíó Paradísar í vetur. „Við byrjum með fulla dagskrá, við erum svo heppin að við eigum fullt af myndum, efni og viðburðum. RIFF verður hjá okkur að hluta til, úrvalsmyndir þaðan verða sýndar í bíói hjá okkur. Við verðum líka að frumsýna fjórar nýjar kvikmyndir þegar við opnum. Svo bara rúlla inn fleiri og fleiri myndir, fleiri viðburðir, leikhússýningarnar verða á sínum stað, lifandi tónlistarviðburðir, svartir sunnudagar, föstudagspartísýningar, þetta verður allt á sínum stað svo við erum bara mjög spennt að byrja,“ segir Hrönn.

Nánari upplýsingar um Skjaldborg má finna hér

Dagskrá Bíó Paradísar er birt hér.

Tengdar fréttir

Vesturbyggð

Súlur Vertical, Króksmóti og Skjaldborg aflýst

Menningarefni

Í skýjunum með handlagna velunnara Bíó Paradísar

Kvikmyndir

Mynd Jóhanns Jóhannssonar Íslandsfrumsýnd á Skjaldborg

Kvikmyndir

Bíó Paradís opnar aftur í haust