Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ákærður fyrir að fá sér kríu undir stýri

Mynd með færslu
 Mynd: Elon Musk - Twitter
Tvítugur Kanadamaður hefur verið ákærður fyrir gáleysislegan akstur en hann er talinn hafa fengið sér kríu undir stýri á Teslunni sinni. Á meðan þaut sjálfakandi bifreiðin áfram á 150 kílómetra hraða.

Lögregla í borginni Ponoka í Alberta-fylki í Kanada segir bæði ökumann og farþega hafa hallað sætisbökum alveg aftur og virst steinsofandi.

Darri Turnbull lögreglumaður segir í samtali við CBC fréttastofuna að enginn hafi virst sitja í bílnum þegar hann þaut framhjá lögreglubifreiðinni. „Það var enginn að fylgjast með því sem fram undan var á veginum,“ segir hann.

Þegar kveikt var á viðvörunarljósum lögreglubílsins jók Teslan hraðann og aðrir ökumenn viku fyrir henni á þeysireiðinni. „Ég er orðaus,“ segir Turnbull sem hefur verið í lögreglunni í 23 ár. Hann kveðst aldrei nokkurn tíma hafa orðið vitni að öðru eins, en auðvitað sé tæknin sem gerir bifreiðum kleift að aka án ökumanns ný af nálinni.

Þótt sjálfstýribúnaður sé í nýjum Tesla bílum er gert ráð fyrir að ökumaðurinn haldi um stýrið og sé tilbúinn að grípa inn í fari eitthvað úrskeiðis. Elon Musk, stofnandi og eigandi fyrirtækisins, gerir ráð fyrir tæknilausn sem tryggi minni þörf fyrir afskipti ökumanns verði tilbúin fyrir árslok. Hann segir þó að ýmis smávægileg vandamál séu enn óleyst.

Ungi ökumaðurinn kanadíski verður leiddur fyrir dómara í desember næstkomandi. Upphaflega var hann sviptur ökuleyfi í 24 stundir fyrir að aka bifreið örþreyttur en var síðar kærður fyrir gáleysi við akstur.