Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skýrsla Björns sögð nýr kafli í norrænni samvinnu

17.09.2020 - 20:32
Mynd: Utanríkisráðuneytið / Aðsend mynd
Utanríkisráðherra segir að vel hafi verið tekið í skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi ráðherra, um þróun samstarfs Norðurlandanna í utanríkis- og öryggismálum. Björn kynnti norrænu utanríkisráðherrunum niðurstöður sínar í Danmörku í dag.

Ellefu ár eru síðan Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, skilaði sambærilegri skýrslu og er hún talin hafa markað tímamót. Björn skilaði sinni í byrjun júlí.  „Henni er almennt mjög vel tekið. Ég get ekki kvartað undan viðtökunum og þetta eru nú fjórtán tillögur þannig að menn hafa kannski mismunandi skoðanir á einstökum tillögum,“ segir hann.

Nauðsynlegt að halda norðurslóðum lágspennusvæði

Tillögurnar lúta að hinum ýmsu þáttum. Sem dæmi má nefna aukna sameiginlega stefnumörkun Norðurlandanna á sviði loftslagsmála, um loftslagsöryggi og þróunarmál, viðbúnað vegna heimsfaraldra, norrænt samstarf um utanríkisþjónustu og að rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála skuli efldar svo fátt eitt sé nefnt. Þá er kveðið á um sameiginlega afstöðu til Kína á norðurslóðum, um þá tillögu segir Björn einna mesta umræðu. „En hins vegar er því vel tekið að það sé farið í að skilgreina hvernig á að nálgast viðfangsefnið. Það er alls staðar verið að ræða þetta mál og það þarf kannski lengri tíma áður en það verður farið að taka það upp á sameiginlegum vettvangi. En allir eru sammála um að það sé nauðsynlegt að halda norðurslóðum sem lágspennusvæði.“

Fundurinn í dag fram á dönsku eynni Borgundarhólmi í Eystrasalti. Í sameiginlegri yfirlýsingu ráðherranna er skýrslan sögð nýr og mikilvægur kafli í norrænni samvinnu. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir vinnu þegar hafna um hvernig skuli koma tillögunum í framkvæmd. „Það sem ég sé fyrir mér og er nokkuð viss um að verði, að við munum sjá framkvæmd á þessum tillögum á næstu misserum og árum. Og það var samstaða um það að fylgja þessu þannig eftir að við séum sérstaklega að fylgjast með fráganginum eftir að við erum búin að taka endanlega afstöðu um framkvæmdina.“