Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir innflutning á lágum gjöldum hafa mikil áhrif

Mynd með færslu
 Mynd: Pxhere
Forstjóri Sláturfélags Suðurlands segir lækkun á afurðaverði nautakjöts til bænda ekki næga til að mæta lækkun á markaði. Kjötafurðastöð KS tilkynnti í morgun allt að 23% lækkun á afurðaverði fyrir ungneyti og kýr í lökustu flokkum.

Sláturfélag Suðurlands tilkynnti nýverið lækkað afurðaverð til bænda fyrir nautgripi. Verð fyrir ungneyti, ungar kýr og naut lækkaði þá um allt að 9,5%. Aukinn innflutningur á nautakjöti á lágum aðflutningsgjöldum, birgðir og langir biðlistar eftir slátrun voru sagðir ástæða lækkunarinnar. Kjötafurðastöð Kaupfélags Skagfirðinga og sláturhúsið á Hellu fylgdi SS eftir í morgun og tilkynnti allt að 23% lækkun í lökustu flokkum ungnauta og kúa og er ástæðan meðal annars há birgðastaða hakkefnis.

Steinþór Skúlason, forstjóri Sláturfélags Suðurlands, segir félagið ekki leika sér að því að lækka verð til bænda. Áhrif af innflutningi komi fyrst við sláturhúsið og hafi svo áhrif áfram yfir á verð til bænda. 

Innflutningur með mikil áhrif á markaðinn

Vegna ESB-tollasamninga sem voru samþykktir árið 2015 hefur tollkvóti ESB til Íslands í nautgripakjöti farið stigvaxandi síðustu ár, úr 100 tonnum árið 2018 og upp í 696 tonn um næstu áramót. Þá var fyrirkomulagi útboðs tollkvóta breytt í vor. Í stað hefðbundins uppboðs er hollenska leiðin svokallaða farin. Þeir sem fá úthlutað kvóta borga þá verð lægstbjóðanda af þeim úthlutuðu.

Steinþór segir breytingarnar hafa mikil áhrif á markaðinn. „Fyrir þetta tímabil sem núna stendur þá eru að koma hingað inn tæp 300 tonn af kjöti og aðflutningsgjöldin eru 200 kr/kg. í heild sem er mjög lágt verð,“ segir Steinþór.

Innflutningurinn skilar því meira af vörum á lágu verði inn á markaðinn. Á hinn bóginn gengur hann gegn því að verja innlenda framleiðslu og innlenda verðmætasköpun, að sögn Steinþórs. „Það segir sig sjálft að aukið framboð á markaði, hvað þá á vöru á lágu verði, að sjálfsögðu þrýstir það niður verði sem fyrir er á markaðnum og það er það sem er að gerast,“ segir hann. 

Segir lækkunina ekki næga

Aðspurður segist hann farinn að finna fyrir áhrifum af þessum innflutningi. Lækkunin sé tímabær. Hún mæti ekki þeirri lækkun sem fyrirtækið sjái á markaðnum á vöðvum og öðru slíku. Þá sé ekki víst að lækkunin dugi haldi sama magn af kjöti, á lágu verði, áfram að flæða inn á markaðinn. 

Formaður Landssambands kúabænda segir þungt hljóð í bændum vegna þessa enda taki þeir á sig allan skellinn. Þá sé alvarlegt að verðlækkanir til bænda síðustu ár hafi ekki skilað sér til neytenda. Steinþór segir SS hafa lækkað verð á vöðva og hakkefni í samræmi við lækkun til bænda en SS hafi hins ekkert með smásöluverð að gera.

Kostnaður við framleiðslu aukist

Ágúst Torfi Hauksson, formaður Landssamtaka sláturleyfishafa, segir tilkostnað við framleiðslu vörunnar hafa hækkað umfram það sem hefur verið unnt að koma út í verðlag. Verð á nautakjöti hafi haldið í við vísitölu neysluverðs síðustu ár, tilkostnaður við slátrun og úrvinnslu hafa hins vegar þróast umfram hana. Þannig hafi laun til að mynda hækkað um 35-40% á síðustu fjórum árum á meðan vísitala neysluverðs og verð á nautakjöti á markaði hafi hækkað um 12% á sama tíma. 

Eru bændur þá að taka á sig allan skellinn? „Nei, ég hygg að svo sé ekki, ég held að geirinn í heild sé að taka á sig skellinn en bændur fara ekki varhluta af því. Ég veit það alveg að afkoma þeirra hefur ekki verið að batna og verðhækkanir á þeirra framleiðslu hafa ekki verið í takt við það sem þeir upplifa í kostnaðarhækkunum í sínum rekstri, en slíkt hið sama gildir um afurðastöðvarnar,“ segir Ágúst Torfi.