Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ódýrasta leiðin til að hafa áhrif í umhverfismálum“

17.09.2020 - 12:49
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni, umhverfis- og auðlindaráðherra við frætínslu á Bessastöðum , 16. september 2020, í landsátaki Skógræktarinnar í söfnun birkifræja. Ljósmynd: Áskell Þórisson
 Mynd: Áskell Þórisson - Skógræktin
Forseti Íslands og umhverfisráðherra söfnuðu fyrstu fræjunum í rigningunni í gær í landssöfnun Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á birkifræjum. Átakið er liður í að útbreiða á ný birkiskóglendi sem þakti að minnsta kosti fjórðung landsins við landnám.

Átak í endurheimt vistkerfa næsta áratuginn

Guðmundur Halldórsson, sérfræðingur hjá Landgræðslunni, segir að uppgræðsla birkiskóga sé mikilvægur þáttur í enduheimt vistkerfa á landinu sem hafa rýrnað og eyðilagst. Næsta áratuginn, 2021 til 2030, tekur Ísland þátt í alþjóðlegu átaki Sameinuðu þjóðanna um endurheimt vistkerfa. Þá hafi rýrt og sorfið land áhrif á kolefnislosun.

„Land þar sem gróður er farinn að hörfa hættir að binda kolefni. Því þurfum við að græða upp það land.“

Guðmundur segir að birki henti vel í svona átak því það sé einfalt að safna fræjunum og sá þeim. Birkið er frumherjategund sem sáir sér mikið upp á eigin spýtur séu skilyrði góð. 

„Þetta geta allir gert og það er ein af höfuðsástæðunum fyrir því að við veljum birkið því þannig getur almenningur verið með og við þurfum almenning með. Þetta er einhver ódýrasta leiðin til að hafa áhrif í umhverfismálum og á ásýnd landsins.“

Fræ sem tínt er þarf að þurrka því annars er hætt við að það mygli og skemmist. Gott er að dreifa úr því og láta liggja til að þorna. Þetta fræ var tínt í Lystigarðinum á Akureyri. Landssöfnun birkifræja 16. september 2020.
 Mynd: Skógræktin
Fræ sem tínt er þarf að þurrka því annars er hætt við að það mygli og skemmist. Gott er að dreifa úr því og láta liggja til að þorna. Þetta fræ var tínt í Lystigarðinum á Akureyri.

Hægt er að nálgast söfnunaröskjur úr pappa í verslunum Bónuss og þar er einnig tekið við fræjum í sérstakar tunnur sem Terra setur upp.

Kópavogsbær tekur við fræi sem safnast á höfuðborgarsvæðinu og sér til þess að því verði dreift á gróðurlitlum svæðum innan sveitarfélagsins.

Hreinn Óskarsson, sviðsstjóri hjá Skógræktinni, útskýrir hvernig skal safna birkifræum í myndskeiði á vef söfnunarinnar og frekari upplýsingar er að finna á vefnum birkiskogur.is.

Guðmundur Halldórsson, skordýrafræðingur.
Guðmundur Halldórsson með poka af birkifræjum.
Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV