Nýtt frá Moses Hightower, Steve Sampling og fleirum

Mynd: Alda / Facebook

Nýtt frá Moses Hightower, Steve Sampling og fleirum

17.09.2020 - 16:00

Höfundar

Hann er fjölbreyttur, fimmtudagsskammturinn af nýrri íslenskri tónlist í Undiröldunni. Við byrjum þetta í jazzskotnu poppi, fáum síðan súreplasúpu í Færeyjum, endurgerðir og alls konar rokk.

Moses Hightower – Selbiti

Hljómsveitin geðþekka Moses Hightower sendir frá sér plötuna Lyftutónlist á morgun, föstudag. Upptökustjórn og upptökur voru í höndum þeirra sjálfra og Styrmis Haukssonar sem einnig hljóðblandaði en hljómjöfnun var í höndum Glenns Schick.


Páll Finnur Páll – Nær kemur tú heim

Færeyska hljómsveitin Páll Finnur Páll var stofnuð seint á síðustu öld og hefur síðan gefið út einar fimm plötur. Nú hefur sveitin sent frá sér vistfræðilega súreplagrautinn Nær kemur tú heim sem þeir vilja meina að sé gott kaffitár þegar bærinn sefur.


Steve Sampling – Lemons 2020

Tónlistarmaðurinn og pródúserinn Stefán Ólafsson, eða bara Steve Sampling, hefur sent frá sér lagið Lemons hjá útgáfufyrirtækinu Möller Records í endurgerðri 2020 útgáfu en eins og stundum áður sækir hann í hipphopp og sálarhljóm.


Urmull og kraðak – Heljarstökk

Helgi Egilsson svæfingahjúkrunarfræðingur og Ragnar Jón (Humi) grunnskólakennari skipa saman veitina Urmul og kraðak. Saman spila þeir á hljómborð og bassa en fá til sín góða gestaspilara. Í titillagi plötu þeirra Heljarstökk spila þeir Tómas Jónsson sem leikur m.a. með ADHD og Steinar Guðjónsson sem spilað hefur með Coral og fleiri böndum.


Tendra – Galdrakarlar

Galdrakarlar er lag í akústískum söngvaskáldastíl sem má finna á fyrstu breiðskífu hljómsveitarinnar Tendru sem kemur út í lok október. Hljómsveitina skipa þau Mikael Máni Ásmundsson gítarleikari og Marína Ósk Þórólfsdóttir söngkona en þau hafa starfað mikið saman frá árinu 2014, lengst af sem jazzdúettinn Marína & Mikael.


Stuntbird – Lo and Behold

Stuntbird er listamannanafn Svavars Níelssonar sem gerir tónlist í indie-folk-stíl, Svavar sendir frá sér lagið Lo and Behold á morgun föstudag.


MEMB – Dreamgirl

Þungarokkshljómsveitin MEMB er ný af nálinni og hefur sent frá sér lag um draumastúlkuna. Sveitin er skipuð þeim Einari Þóri Árnasyni söngvara og gítarleikara, Fannari Benedikt Guðmundssyni gítarleikara, Teiti Birgissyni bassaleikara og trommaranum Þór Adam Rúnarssyni.


RedLine – Treat Me Bad

Glamrokksflokkurinn RedLine hefur sent frá sér plötuna 13:18 sem er í anda þungarokks frá níunni sem kvartettinn elskar.