Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Leitt að sjá á eftir Rósu sem þykir stefna VG dapurleg

Mynd: RÚV / RÚV
„Það er auðvitað alltaf mjög leiðinlegt þegar leiðir skilja og ekki síst þegar um er að ræða félaga sem hefur lengi verið með okkur og er nú bara ágæt vinkona mín, þannig að það er auðvitað alltaf mjög leitt,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, um brotthvarf Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur úr þingflokknum og hreyfingunni í dag.

Rósa sagði í yfirlýsingu að ákvörðun stjórnvalda um brottvísun egypsku fjölskyldunnar hefði orðið til þess að hún hefði ekki talið sig lengur eiga samleið með flokknum. Tveir þingmenn Vinstri grænna hafa því yfirgefið flokkinn á þessu kjörtímabili. Andrés Ingi Jónsson hætti í nóvember á síðasta ári og hefur setið á Alþingi sem óháður þingmaður. Vinstri græn fengu ellefu þingmenn kjörna í síðustu alþingiskosningum og því eru níu nú eftir í þingflokknum. 

Tveir þingmenn eru búnir að hætta á þessu kjörtímabili. Það hlýtur að vera áhyggjuefni?

„Þetta er svo sem ekki alveg ókunnuglegt viðfangsefni. Þegar VG var í ríkisstjórn með Samfylkingu, 2009 - 2013, þá voru það einir fimm þingmenn sem yfirgáfu okkur. Þannig að við skulum segja að þetta er engin nýlunda fyrir okkur,“ segir Katrín.

Ekki ákveðið hvort hún bjóði sig fram á ný

Rósa Björk sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að mál egypsku fjölskyldunnar hafi verið kornið sem fyllti mælinn fyrir sig.

„Það er ekki annað hægt en að taka afstöðu með réttindum barna og barnafjölskyldna á flótta. Það er ekki annað en dapurlegt að sjá á þeim þremur árum sem VG hefur setið í ríkisstjórn þá hefur ekki verið mótuð almennileg stefna í málefnum flóttafólks með mannúð að leiðarljósi, heldur er hér verið að fylgja greinilega harðlínustefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að málefnum þessa fólks,“ sagði Rósa Björk.

Hún ætlar að sitja áfram sem óháður þingmaður, en er ekki búin að taka ákvörðun um hvort hún bjóði sig fram í næstu alþingiskosningum næsta haust. Þá segist hún ekki hafa íhugað að ganga til liðs við annan flokk.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV