Krump og gleði sem margir munu tengja við

Mynd: RÚV núll / Þjóðleikhúsið

Krump og gleði sem margir munu tengja við

17.09.2020 - 11:32
Um helgina fara hjólin aftur að snúast í leikhúsunum og þá verður sýningin Upphaf frumsýnd í Þjóðleikhúsinu. Sögusviðið er eftirpartý í Vesturbænum í Reykjavík. Fylgst er með Guðrúnu og Daníel, sem Kristín Þóra Haraldsdóttir og Hilmar Guðjónsson leika, sem reyna að nálgast hvort annað eftir að síðustu gestirnir eru farnir.

Upphaf fjallar um nánd og nándarfælni; um óttann við skuldbindingar og það að tengjast öðru fólki of sterkum böndum. Verkið er eftir David Eldridge, Auður Jónsdóttir þýddi og María Reyndal leikstýrir.

Kristín Þóra segir að verkið sé mjög aðgengilegt, nútímalegt og skemmtilegt. „Það er alls konar krump og gleði sem margir munu tengja við.“

Þau byrjuðu að æfa verkið í gegnum Zoom-fjarfundaforrit í miðju kófinu. Hilmar segir að það hafi ekki gengið svo vel. „Maður var með heyrnartólin og svo bara: Bíddu aðeins, ég þarf að taka eina kúkableyju svo kem ég, allir heima og ég inni í barnaherberginu,“ segir Hilmar. Svo fengu þau að æfa í leikhúsinu en þó með tveggja metra bili. Þau segja að það hafi hentað vel og hafi gefið skemmtilega dýnamík. „En það var léttir að mega svo snertast loksins.“

Hilmar og Kristín Þóra tengja bæði við verkið að einhverju leyti. „Ég á röð af vandræðalegum stefnumótum því ég verð alltaf svo vandræðaleg,“ segir Kristín Þóra. Þau segja bæði að þegar maður fer á stefnumót þá eigi maður það til að fara ofhugsa, spá í hvernig hárið á manni sé, hvernig maður situr, breyta röddinni og jafnvel þykjast vera einhver annar en maður er.

Jafet Máni spjallaði við Kristínu Þóru Haraldsdóttur og Hilmar Guðjónsson um sýninguna Upphaf, eftirpartý og vandræðaleg stefnumót. Sjáðu viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.