Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Helga Vala hefur hug á varaformennsku í Samfylkingu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur tilkynnt framboð sitt til varaformanns flokksins á næsta landsfundi sem haldinn verður í nóvember.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag. Ekkert bendir til annars en að Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður flokksins og borgarfulltrúi í Reykjavík, hyggist halda áfram þannig að búast má við að kosið verði milli þeirra á landsfundi Samfylkingarinnar í nóvember.

Alþingiskosningar verða haldnar 25. september á næsta ári og stjórnmálaflokkar eru þegar farnir að huga að kosningabaráttunni. Liður í því er að stilla upp forystu flokksins, endurnýja umboð þeirra og móta stefnuna.

Heiða Björg var kjörin varaformaður flokksins í febrúar 2016, eftir að hafa tekið sæti í borgarstjórn í byrjun vetrar. Logi Már Einarsson, þingmaður flokksins í Norðausturkjördæmi, hefur verið formaður síðan haustið 2016, þegar hann tók við af Oddnýju Harðardóttur.

Samfylkingin hefur ítrekað mælst næst vinsælasta framboðið í þjóðarpúlsi Gallup síðustu misseri, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum. Í síðasta þjóðarpúlsi mældist Samfylkingin með 14,7 prósenta stuðning. Í síðustu Alþingiskosningum fékk flokkurinn 12,1 prósent atkvæða á landsvísu og sjö þingmenn.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV