Fyrrverandi fyrirsæta sakar Trump um kynferðisofbeldi

epa08367648 US President Donald J. Trump participates in a news briefing with members of the Coronavirus Task Force at the White House, in Washington, DC, USA, 16 April 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA - RÚV
Amy Dorris, fyrrverandi fyrirsæta, sakar Donald Trump Bandaríkjaforseta um kynferðisofbeldi gegn sér árið 1997. Hún segir Trump hafa þuklað á henni og kysst hana í viðhafnarstúku á opna bandaríska meistaramótinu í tennis í New York. Í viðtali við Guardian segist hún hafa beðið hann um að hætta og komist hvergi.

Dorris segir í viðtali við Guardian að Trump hafi „troðið tungunni ofan í hálsinn" og hún hafi þurft að ýta honum af sér. Þá hafi hann gripið þéttar um hana og hann hafi þuklað á henni allri, gripið um rass hennar, brjóst, bak og allt. „Ég var í fanginu á honum og komst hvergi," bætti hún við. 

Vill vera fyrirmynd fyrir dætur sínar

Dorris var 24 ára þegar hún hitti Trump. Sjálfur var Trump ríflega fimmtugur og kvæntur Marla Maples, annarri eiginkonu sinni. Dorris færði Guardian myndir til birtingar sem sýna þau Trump saman í kringum opna bandaríska. Þá ræddi Guardian við fjölda fólks sem gat staðfest frásögn hennar.

Hún segist hafa beðið Trump um að hætta en hann hafi látið það sem vind um eyru þjóta. „Mér fannst brotið á mér, eðlilega," hefur Guardian eftir henni.
Dorris segist hafa velt því fyrir sér að koma fram fyrir síðustu kosningar. Þá kom fjöldi kvenna fram með svipaðar ásakanir gegn forsetanum. Hún ákvað að sleppa því, af ótta við að það kæmi illa við fjölskyldu hennar. „Nú þegar dætur mínar eru að verða þrettán ára vil ég kenna þeim að þú lætur engan gera þér eitthvað sem þú vilt ekki," segir hún við Guardian. Hún vilji vera fyrirmynd og sýna þeim að hún standi ekki þögul hjá. Dorris sagði Guardian fyrst frá þessu fyrir rúmu ári síðan, en vildi þá ekki láta hafa neitt eftir sér.

Þvættingur segja lögmenn Trumps

Lögmenn Trumps segja ekkert hæft í ásökununum. Ef saga hennar væri sönn hefði verið fullt af vitnum sem hefðu séð þau. Þeir segja ásakanirnar pólitískar, enda aðeins nokkrar vikur til kosninga. 

Alls hafa 25 konur sakað Trump opinberlega um ýmis konar kynferðisofbeldi eða kynferðislega áreitni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi