Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ekki hægt að útskýra fjölgun smita sem tilviljun

17.09.2020 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Mikil aukning í fjölda nýgreindra kórónuveirusmita er ekki í takt við spálíkan um þróun faraldursins. Uppfærð spá verður ekki birt en fjöldann sem hefur greinst undanfarna tvo daga er ekki hægt að útskýra með tilviljun einni.

Þetta kemur fram í uppfærðri færslu á covid.hi.is þar sem rýnt er í COVID-19 faraldurinn á Íslandi. Eins og efri myndin hér fyrir neðan sýnir er fjöldi smita síðustu tvo daga, rauðu punktarnir, langt frá því sem spálíkanið gerði ráð fyrir.

Mynd með færslu
 Mynd: HÍ
Spálíkanið miðað við smitin síðustu daga.

Á neðri myndinni sést svo að vísbendingar eru um að þróun nýgreindra smita hafi breyst. Fjöldi smita síðustu tvo daga fer upp fyrir það sem talið var ólíkleg spá. Tekið er fram að stöku sinnum geti fjöldi smita farið yfir þau mörk vegna tilviljunar einnar.

„En þó teljum við að fjöldinn sem hefur greinst undanfarna tvo daga verði ekki útskýrður á þann hátt,“ segir í færslunni frá vísindamönnum Háskóla Íslands, embættis landlæknis og Landspítala.

„Þurfum að hugsa okkar gang“

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og höfundur reiknilíkansins, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að þetta benti til þess að faraldurinn væri farinn að sækja í sig veðrið.

„Þetta er ekki lengur stakt frávik, þannig að það er eitthvað að gerast. Við þurfum eitthvað að hugsa okkar gang núna,“ sagði Thor.

Hann sagðist jafnframt búast við því að næstu daga yrði fjöldi greindra smita svipaður og síðustu tvo daga en spálíkanið hafði gert ráð fyrir að faraldurinn væri á hægri niðurleið.