Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

15 af 19 nýjum smitum með „frönsk fingraför“ á veirunni

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
15 af þeim 19 smitum sem greindust í gær eru með nýtt afbrigði af kórónuveirunni. Það hefur verið rakið til tveggja franskra ferðamanna sem greindust með veiruna hér á landi um miðjan ágúst og fóru í einangrun. Sjö af þeim 13 sem greindust í fyrradag reyndust einnig vera með þessi fingraför og höfðu öll sótt sama öldurhúsið.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir þetta hafi komið í ljós við raðgreiningu á veirunni. 

Hann bendir á að ekki nema helmingur þeirra sem smitast af veirunni fá einkenni. „Sem dæmi má nefna að til að veiran kæmist til okkar á þessum mánuði sem er liðin frá því að frönsku ferðamennirnir komu til landsins þarf ekki nema fjögurra manna keðju. Líkurnar á því að þeir séu allir einkennalausir eru ekki nema 1 á móti 16.“ Kári telur þetta sýna að þessi veira sé lúmsk og fljúgi oft undir radarnum.

Telur skynsamlegt að loka vínveitingastöðum um helgina

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, upplýsti í dag að hann myndi skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra um hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu.  Verður spjótunum einna helst beint að vínveitingastöðum.

Kári telur skynsamlegast að loka þeim algjörlega yfir helgina. „Þessir sem eru að sýkjast eru á þessum öldurhúsa-aldri og það þarf engan Einstein til að átta sig á því að þegar ungt fólk kemur saman þá slaknar á þessum einstaklingsbundnu sýkingavörnum.“

Lokun þessara staða myndi því gefa yfirvöldum svigrúm til að átta sig á stöðunni, hvort þetta séu tveir skrýtnir toppar eða stór bylgja. „Og ef þetta væri það síðarnefnda myndi slík ákvörðun reynast mjög vel.“

Telja rýmri opnunartíma koma í veg fyrir hópamyndun

Arnar Þór Gíslason,  sem er í forsvari fyrir staði eins og Lebowski bar, Irishman og Kalda, segir að þeir aðstoð nú smitrakningateymið við rakningu smita. Allt starfsfólk hafi verið sent í skimun en enginn hafi greinst með staðfest smit.  Hann segist ekki hafa fengið neina beiðni um að loka einhverjum af sínum stöðum.

Arnar segir að þeir hafi farið eftir öllum reglum um samkomutakmarkanir og nándarmörk. Það skapist vandamál þegar stöðunum loki því þá myndist stórar hópar á götum úti.  „Ef opnunartíminn yrði lengdur myndi fólk ekki safnast saman heldur dreifa sér frekar. Þegar við lokum klukkan 23 þá gerast hlutir yfir utan sem eiga ekki að gerast og hver á að passa það? Við pössum okkur en hver á að passa kannski þrjú þúsund manns.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV