Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Von der Leyen boðar nýtt hælisleitendakerfi

epa08338342 European Commission President Ursula von der Leyen holds a news conference detailing EU efforts to limit economic impact of the coronavirus disease (COVID-19) outbreak, in Brussels, Belgium, 02 April 2020.  EPA-EFE/FRANCOIS LENOIR / POOL
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Mynd: EPA-EFE - REUTERS POOL
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, boðar breytingar á hælisleitendakerfi sambandsins. Hún tilkynnti í umræðum eftir stefnuræðu sína í morgun að Dyflinnarreglugerðinni verði skipt út. Unnið verður út frá sameiginlegu fyrirkomulagi varðandi umsókn um alþjóðlega vernd og brottrekstur og byggi á sterkri samstöðu, að hennar sögn.

Dyflinnarreglugerðin hefur verið í gildi frá árinu 1990. Reglugerðin hefur lengi verið umdeild en samkvæmt henni geta ríki vísað fólki sem sækir um alþjóðlega vernd úr landi hafi það þegar sótt um vernd í öðru ríki innan Schengen-svæðisins. Slíkar breytingar þarfnast þó samþykkis allra aðildaríkja, sem eru síður en svo einhuga um þessi mál. 

Til stendur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti umbætur sínar á málefnum flóttamanna í næstu viku. 

Varar stjórnvöld í Lundúnum við

Von der Leyen kom víða við í fyrstu stefnuræðu sinni í morgun og varaði meðal annars stjórnvöld í Lundúnum við því að breyta einhliða útgöngusamningi Breta úr sambandinu.

Hún sagði að útgöngusamningurinn hefði bæði verið samþykktur á Evrópuþinginu og breska þinginu. Samningnum væri hvorki hægt að breyta einhliða né virða að vettugi. Þetta snerist um lög og traust.

Framkvæmdastjórinn vék einnig að loftslagsmálum og lagði til að dregið yrði meira úr losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 en kveðið væri á um í núverandi markmiðum Evrópusambandsins eða um 55 prósent í stað 40 prósenta. Frakkar og Þjóðverjar styðja þessar tillögur, en tregða er meðal ríkja í austanverðri Evrópu sem treysta mikið á kol sem orkugjafa. Búist er við að reynt verði að leiða málið til lykta á leiðtogafundi sambandins í næsta mánuði.

Von der Leyen lýsti yfir áhyggjum af vaxandi spennu við austanvert Miðjarðarhaf þar sem Grikkir og Kýpverjar hafa deilt við Tyrki um lögsögu og rétt til náttúruauðlinda.

Hún sagði að Tyrkland væri og yrði ávallt mikilvægur nágranni, en þótt stutt væri á milli þess og Evrópusambandsins á landakorti virtist fjarlægðin milli þeirra vera að aukast. Hún sagði Evrópusambandið einhuga í stuðningi við Grikkland og Kýpur og hvatti til viðræðna um lausn deilna þeirra og Tyrkja.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV