Varð stjörnulostin þegar hún hitti Sigurð H. Richter

Mynd: RÚV / RÚV

Varð stjörnulostin þegar hún hitti Sigurð H. Richter

16.09.2020 - 10:53

Höfundar

Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur er einn þriggja stjórnenda þáttarins Nýjustu tækni og vísinda sem vaknaði af fjórtán ára dvala og hóf göngu sína aftur á RÚV á mánudag. Edda og Sigmar Guðmundsson, sem situr við stjórnvölinn með Eddu og Sævari Helga Bragasyni, taka við keflinu af Sigurði H. Richter sem stýrði þættinum í þrjátíu ár.

Í glænýrri þáttaröð Nýjustu tækni og vísinda eru íslenskar vísindarannsóknir í forgangi. Fjallað verður meðal annars um öldrun, hvali, sprotafyrirtæki og svokölluð snjall-heimili. Umsjónarfólk þáttarins, og þau sem taka við kyndlinum af sjálfum Sigurði H. Richter, eru Sævar Helgi Bragason, Edda Elísabet Magnúsdóttir og Sigmar Guðmundsson. Edda og Sigmar sögðu frá umfjöllunum og uppgötvunum sínum í þessari tímamótaupprisu í Mannlega þættinum á Rás 1.

Edda er doktor í sjávarlíffræði og hefur sérhæft sig í hvölum. Hún starfar við Háskóla Íslands þar sem hún einbeitir sér að rannsókn á söng hnúfubaka. „Svo hef ég reynt að vera iðin í vísindamiðlun á vegum Háskólans á ýmsum vettvangi. Við höfum til dæmis verið með Háskóla unga fólksins og svo hefur mér alltaf þótt gaman að miðla til almennings,“ segir Edda sem er spennt að miðlu nýjustu tækni og vísindum til áhorfenda í vetur. „Ég mun í þessari seríu einbeita mér að hvölunum og taka áhorfendur með mér í rannsóknarverkefni og ég fæ að fylgjast með þeim verkefnum sem eru í gangi núna og kynna önnur. Það er mitt helsta hlutverk.“

Sigmar stýrir Morgunútvarpinu á Rás 2 og hefur Sævar, eða Stjörnu-Sævar eins og hann er jafnan kallaður, komið vikulega í þáttinn og frætt almenning um áhugaverðar uppgötvanir í vísindum. Innslög hans hafa verið geysivinsæl sem sýnir fram á fróðleiksþorsta almennings í þessum efnum. Sigmari og Sævari datt því í hug að færa fróðleikinn á skjáinn og fengu Eddu í teymið til að blása með þeim lífi í þættina sálugu.  „Þau þekkja að miðla vísindum, tækni og þekkingu til fólks en ég er öllu reyndari í að búa til sjónvarpsþætti. Svo þegar verið er að miðla svona til almennings, en ekki sérfræðinga, þarf ekki annað en góðan skammt af forvitni. Ég spyr spurninganna,“ segir Sigmar. „Og maður er að sjá það núna að það virðast allir hafa horft á þessa þætti alltaf.“ Edda tekur undir það og man vel eftir að hafa setið límd við skjáinn og drukkið í sig fróðleik Sigurðar Richters í hverri viku enda missti hún ekki af þætti. Og hún ætlaði ekki að trúa sínum eigin augum þegar hún hitti hann fyrst í  eigin persónu í háskólanámi sínu en hún fetaði einmitt í fótspor Sigurðar. „Og ég varð „starströkk“ þegar hann kenndi mér líffræði,“ segir hún. Sigurður hefur sjálfur lýst yfir ánægju sinni með að nemandi hans og annar líffræðingur hafi tekið við þættinum og það er Edda einnig. „Þetta var svolítill hvirfilbylur sem ég hoppaði inn í og svo lenti ég einhvers staðar. En þetta reyndist ótrúlega skemmtilegt og það bara gekk. Þeir eru svo afslappaðir og þægilegir, Simmi og Sævar.“

Rætt var við Sigmar og Eddu í Mannlega þættinum á Rás 1. Annar þáttur Nýjustu tækni og vísinda er á dagskrá á mánudag klukkan 20 en fyrsta þáttinn er hægt að horfa á hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Er ekki kominn tími til að prófa eitthvað nýtt?“