Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þungt hljóð í kúabændum vegna lækkaðs afurðaverðs

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Formaður Landssambands kúabænda segir þungt hljóð í bændum eftir að afurðaverð nautakjöts var lækkað. Bændur séu látnir þola verðlækkun sem skili sér ekki til neytenda. Hann telur að einhverjir eigi eftir að hætta nautakjötsframleiðslu vegna lækkunarinnar.

Sláturfélag Suðurlands hefur lækkað afurðaverð nautgripa til bænda. Verð fyrir ungneyti, ungar kýr og naut, hefur lækkað um allt að 9,5 prósent. Í tilkynningu frá félaginu er aukinn innflutningur á nautakjöti á lágum aðflutningsgjöldum; birgðir; og langir biðlistar eftir slátrun, orsök lækkunarinnar.

Aukinn tollkvóti á lægra verði

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda segir þungt hljóð í bændum vegna þessa. Lækkanirnar komi því miður ekki á óvart; „Það hefur verið stóraukning á tollkvótum, það er að segja á tollfrjálsu kjöti, innfluttu til landsins. Fyrir utan að verð á þeim tollkvótum hefur stórlækkað með nýju útboðsfyrirkomulagi sem hefur verið kölluð hollenska leiðin,“ segir Arnar. 

Lækkanir skila sér ekki til neytenda

Landssambandið hefur látið reikna út vísitölu fyrir íslenskt nautakjöt og birtir á næstu dögum. Þar sést glögglega, að sögn Arnars, að verð til bænda hefur stórlækkað á meðan neysluverðsvísitalan hækkar. Verðlækkanir sem bændur eru látnir þola skili sér því ekki til neytenda og það sé alvarlegt mál. 

Telur einhverja hætta framleiðslu

En hvað þýðir þetta fyrir bændur, borgar það sig að vera með nautaeldi í dag? „Auðvitað er það misjafnt í tilfellunum en við erum komin ansi nálægt sársaukapunkti í þessu og það verða einhverjir sem leggja upp laupana í þessari framleiðslu eins og staðan er núna,“ segir Arnar. 

SS er eina sláturhúsið sem er búið að lækka afurðaverðið. Arnar á þó von á því að hin fylgi í kjölfarið. Hjarðhegðunin í þessum málum sé algjör. Hann voni þó að svo verði ekki svo það sé hægt að halda íslensku framleiðslunni áfram og á lofti. 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV