Þrettán ný kórónuveirusmit á Íslandi í gær

16.09.2020 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan
Þrettán ný kórónuveirusmit greindust á Íslandi í gær. Aðeins einn af þessum þrettán var í sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af því að það gætu verið fleiri smit sem ekki er vitað um. Hann hvetur alla til að gæta vel að sóttvörnum, þvo hendur og spritta. Þeir sem eru með einhver einkenni um veikindi eiga ekki að mæta til vinnu eða í skóla.

Tveir starfsmenn íbúðakjarna fyrir fatlað fólk í Breiðholti og Grafarvogi í Reykjavík hafa greinst með COVID-19. Þeir unnu náið með tveimur íbúum sem fá þjónustu allan sólarhringinn. Tekin verða sýni úr íbúunum í dag. Á íbúðakjarnanum í Breiðholti fara tuttugu starfsmenn í sóttkví og sex í Grafarvogi. Starfsfólk sem vinnur annars staðar kemur og vinnur á þessum stöðum á meðan.

Einn af þeim þrettán sem greindust í gær er nemi í Háskólanum í Reykjavík. Hann var að vinna að verkefni í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Þess vegna verða sýni tekin úr öllu starfsfólkinu þar og margir þar fóru í sóttkví. Íslensk erfðagreining ætlar að bjóða öllum í Háskólanum í Reykjavík og öllum í Háskóla Íslands í skimun. Fjórir eða fimm af þeim sem eru smitaðir tengjast Háskóla Íslands. Til að byrja með fara fimm hundruð starfmenn og nemendur þar í sýnatöku.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
annathr's picture
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi