Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telja mál Jóns Baldvins ekki falla undir íslensk lög

16.09.2020 - 10:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Verjandi Jóns Baldvins Hannibalssonar fór fram á það við þingfestingu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að ákæru á hendur honum yrði vísað frá dómi. Frávísunarkrafan byggir á því að meint brot hafi átt sér stað á Spáni, utan lögsögu íslenskra yfirvalda.

Hvorki Jón Baldvin né Carmen Jóhannsdóttir sem kærði Jón voru viðstödd þingfestinguna í morgun. Vilhjálmur Vilhjálmsson verjandi Jóns Baldvins sagði Jón vera fjarverandi vegna persónulegra aðstæðna. Frávísunarkrafan byggir á 5.grein almennra hegningarlaga sem fjallar um lögsögu og hvenær refsa skuli samkvæmt íslenskum lögum.

Málflutningur frávísunarkröfunnar verður tekin fyrir 30.október.

Jón Baldvin greindi sjálfur frá ákærunni fyrr í mánuðinum í aðsendri grein í Morgunblaðinu. Honum er gefið að sök að hafa strokið utan klæða upp og niður eftir rassi Carmenar á heimili sínu í Salobrenia á Spáni 16. júní 2018.

Í viðtali í Silfrinu í febrúar í fyrra sagði Jón Baldvin að atvikið sem hann er nú ákærður fyrir hafi verið sviðsett. Það var í kjölfar þess að fjöldi kvenna gekk í Facebook-hóp í janúar sama ár og sökuðu hann um kynferðislega áreitni.